Fótbolti

Bayern Munchen fékk ó­vænt til sín stjörnuvarnarmann Stuttgart

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hiroki Ito var óvænt kynntur sem leikmaður Bayern Munchen í dag.
Hiroki Ito var óvænt kynntur sem leikmaður Bayern Munchen í dag. x / @fcbayern

Hiroki Ito gekk til liðs við Bayern Munchen frá Stuttgart í dag. Hann er fyrsti leikmaðurinn sem kemur til félagsins síðan Vincent Kompany tók við stjórnartaumunum og skrifaði undir fjögurra ára samning.

Hiroki var lykilmaður í hjarta varnarinnar hjá Stuttgart sem endaði í 2. sæti deildarinnar.

Félagaskipti Hiroki í dag komu nokkuð á óvart þar sem Jonathan Tah er einnig talinn á leið til Bayern frá meistaraliðinu Leverkusen. Báðir eru þeir miðverðir.

Það sem skilur Hiroki hins vegar að er að hann er örvfættur, sem býður upp á betri uppspils- og sendingarmöguleika. Eitthvað sem Kompany metur mikils.

Bayern hafa verið án vinstri fótar hafsents síðan Lucas Hernandez og David Alaba fóru frá félaginu.

Síðasta sumar skoðaði félagið Pau Torres, sem fór svo til Aston Villa, og Levi Colwill sem varð um kyrrt hjá Chelsea.

Ennþá er reiknað með því að Bayern kaupi Jonathan Tah, en þau skipti munu ekki ganga í gegn fyrr en eftir að þátttöku hans á Evrópumótinu lýkur.

Þá er ekki útilokað að ef Tah kemur muni Matthis de Ligt og Dayot Upamecano hugsa sér til hreyfings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×