Innlent

Stút­full há­tíðar­dag­skrá um allt land á 17. júní

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hátíðargestir á Rútstúni í Kópavogi.
Hátíðargestir á Rútstúni í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Þjóðhátíðardagurinn verður haldinn hátíðlegur á morgun og haldið verður upp á 80 ára afmæli lýðveldisins. Venjunni samkvæmt er stútfull og metnaðarfull dagskrá um allt land. Vísir tók saman dagskrána í nokkrum sveitarfélögum.

Reykjavíkurborg

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní verður fjölbreytt dagskrá í höfuðborginni allan daginn. Dagurinn hefst klukkan 11:10 með hátíðlegri athöfn á Austurvelli. Forseti Íslands leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jón Sigurðssonar og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flytur hátíðarræðu. Fjallkonan flytur einnig ávarp og nýstúdentar leggja blómsveig við leiði Jóns og Ingibjargar í Hólavallakirkjugarði að athöfninni lokinni.

Þá verður haldið í skrúðgöngu frá Austurvelli í Hólavallakirkjugarð. Í kjölfarið á því taka við alls konar skemmtanir fyrir unga og aldna. Tónleikar, götuleikhús, dans, matarvagnar og margt fleira.

Á vefnum 17juni.is má skoða dagskrána í Reykjavík nánar. Þar er einnig hægt að finna upplýsingar um götulokanir.


Kópavogsbær

Í Kópavogi verður 17. júní fagnað með glæsibrag og verður boðið upp á dagskrá á nokkrum stöðum í bænum. Skemmtidagskrá er bæði á Rútstúni og við Versali frá tvö til fjögur en leiktæki og hoppukastali opna klukkan tólf. Einnig er dagskrá við Menningarhús bæjarins.

Skrúðganga verður gengin frá Menntaskólanum í Kópavogi klukkan 13:30 og henni lýkur á Rútstúni. Þar hefst svo skemmtidagskrá þar sem fram koma ýmsir listamenn sem og fjallkona Kópavogs.

Dagskrána í Kópavogi má skoða nánar hér.

Hafnarfjörður

Þjóðhátíðarveisla sem teygir anga sína víða um bæinn verður í boði víðsvegar um Hafnarfjörð. Þjóðhátíðardagurinn hefst með fánahyllingu á Hamrinum klukkan átta í boði Skátafélagsins Hraunbúa og lýkur með glæsilegri kvölddagskrá á Thorsplani.

Þjóðbúningasamkoma verður haldin í Flensborg klukkan ellefu og klukkan eitt verður gengin skrúðganga frá Flensborgarskólanum niður Hringbraut, eftir Lækjargötu og inn Strandgötu að Thorsplani. Þar hefjast svo hátíðarhöldin klukkan hálf tvö.

Dagskrána má lesa á vef Hafnarfjarðarbæjar.


Garðabær

Í Garðabæ verður dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Kvenfélag Garðabæjar heldur kaffihlaðborð og hátíðartónleikar verða haldnir í tilefni af áttatíu ára afmæli lýðveldisins.

Skátafélagið Vífill og Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar leiða skrúðgöngu klukkan eitt sem fer frá Hofsstaðatúni á Garðatorg. Þar mun fjallkona Garðabæjar flytja ávarp og kunnulegar persónur úr Latabæ skemmta krökkunum.

Dagskrána má sjá í heild sinni hér.


Mosfellsbær

Á lýðveldisdaginn verður einnig boðið upp á fjölbreytta dagskrá í Mosfellsbæ. Dagskráin hefst með hátíðarguðsþjónustu í Lágafellskirkju klukkan ellefu og Skátafélagið Mosverjar leiðir síðan skrúðgöngu að Hlégarði klukkan hálf tvö.

Að skrúðgöngunni genginni tekur fjölskyldudagskrá við í Hlégarði. Þar mun fjallkona bæjarins flytja ávarp og listamenn af ýmsum toga stíga á stokk. Hoppukastalar, skátaleikir, sölutjöld og andlitsmálun verður þar líka að finna.

Dagskrána má sjá á vef Mosfellsbæjar.


Seltjarnarnes

Á Seltjarnarnesi verður skrúðganga og fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Frítt verður í alla skemmtun og leiki. Dagskráin hefst klukkan tíu með bátasiglingu frá smábátahöfninni í boði Siglingafélagsins Sigurfara og Björgunarsveitarinnar Ársæls. Þá verður hátíðarguðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju klukkan ellefu.

Klukkan korter í eitt verður gengin skrúðganga frá Leikskóla Seltjarnarnes yfir í Bakkagarð og lúðrasveit tónlistarskólans, trúðar, stultufólk og fánaberar verða þar í broddi fylkingar.

Við tekur skemmtanahald í Bakkagarði klukkan eitt. Fjallkonan flytur ljóðið Hver á sér fegra föðurland og tónlistarmenn troða upp. Þá verður einnig fjölbreytt úrval af leiktækjum í Bakkagarði.

Dagskrána má lesa í heild sinni á vef Seltjarnarnesbæjar.

Akureyri

Þjóðhátíðardagurinn verður haldinn hátíðlegur á Akureyri í Lystigarðinum. Skrúðgangan leggur af stað frá Gamla húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti og heldur suður í Lystigarð þar sem formleg hátíðarhöld fara fram.

Við komuna þangað hefst hátíðardagskráin. Tónlist, ávörp, dans og alls kyns skemmtanir verða aðgengilegar Akureyringum milli tvö og fimm.

Dagskrána má lesa hér.


Reykjanesbær

Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður fagnað í Reykjanesbæ og verður stærsti fáni landsins dreginn að húni á fánastönginni í skrúðgarðinum í Keflavík. Dagskráin hefst klukkan tólf með hátíðarguðsþjónustu í Keflavíkurkirkju. Þá verður skrúðganga gengin frá Keflavíkurkirkju í skrúðgarðinn með sérstökum gestum úr U.S. Naval Forces Europe og Africa Band.

Klukkan 13:20 tekur við hátíðardagskrá í skrúðgarðinum þar sem Karlakór Keflavíkur syngur þjóðsönginn, fjallkonan ávarpar lýðinn og fleira. Þá tekur við skemmtidagskrá með fjölbreyttum tónlistar- og dansatriðum ásamt hoppuköstulum, hestateymingu, andlitsmálningu og fleiru.

Dagskrána má sjá í heild sinni hér.


Árborg

Á Selfossi verður fjölbreytt hátíðardagskrá fyrir alla aldurshópa. Skrúðganga verður gengin frá Selfosskirkju klukkan korter yfir eitt, gengið verður Kirkjuveg, Eyraveg, Austurveg, Reynivelli, Engjaveg, Sigtún og inn í Sigtúnsgarð.

Klukkan 13:30 hefst svo hátíðardagskrá í Sigtúnsgarði. Þar verða hoppukastalar, loftboltar, andlitsmálum og alls konar sælgæti til sölu. Fjallkonan ávarpar hátíðargesti og tónlistarfólk treður upp.

Dagskrána á Selfossi má sjá hér.


Ísafjörður

Á Ísafirði verður haldið upp á afmæli lýðveldisins á Eyrartúni. Klukkan 13:15 verður skrúðganga gengin frá Silfurtorgi upp á Eyrartún og þar tekur við hátíðardagskrá. Lúðrasveitin leikur fjörug lög, hátíðarræðu heldur Ólafur Guðsteinn Kristjánsson og fjallkona bæjarins ávarpar gesti.

Á Eyrartúni verða einnig hoppukastalar, andlitsmálun, karamelluregn, hestbak fyrir börn og sölutjöld á vegum körfuknattleiksdeildar Vestra.

Þá verður einnig dagskrá á Hrafnseyri, fæðingarstað sjálfs Jóns Sigurðssonar, þar sem krakkar fá tækifæri til að spreyta sig á fornleifauppgrefti undir handleiðslu fornleifafræðings. Þar verður íbúum af erlendum uppruna einnig boðið upp á leiðsögn og fræðslu um íslenska lýðveldið, Jón Sigurðsson, Hrafnseyri og fornminjar á einfaldri íslensku.

Dagskrána má sjá í heild sinni hér.

Fjarðabyggð

Fjarðabyggð heldur 17. júní hátíðlegan í samstarfi við íþróttahreyfinguna í Fjarðabyggð og fer hátíðardagskrá sveitarfélagsins fram til skiptis í hverjum bæjarkjarna. Í ár fer hátíðardagskráin fram við Salthúsmarkaðinn á Stöðvarfirði.

Dagskráin hefst klukkan 12:20 með afhjúpun og vígslu upplýsingaskilta við Stöðvarkirkjugarð og um fornleifauppgröftinn við Stöð. Þá mun forseti bæjarstjórnar ávarpa lýðinn klukkan eitt og fjallkonan í kjölfarið.

Við Salthúsmarkaðinn verða hoppukastalar, andlitsmálning og götulist. Einnig verður boðið upp á pylsur og köku.

Dagskrána má sjá í heild sinni hér.

Hvolsvöllur

Á Hvolsvelli hefst hátíðardagskráin snemma eða klukkan níu með morgunmat í Hvolnum. Frá klukkan tíu verður opið hús hjá lögreglunni og björgunarsveitinni Dagrenningu.

Klukkan 12:10 verður komið saman við Kirkjuhvol og leggur skrúðgangan af stað klukkan 12:30. Frá klukkan eitt verður hátíðardagskrá á miðbæjartúninu. Þar verður íþróttaálfurinn, tónlistaratriði, fjallkonan ávarpar gesti, hoppukastalar og fleira.

Dagskrána má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×