Skoðun

Hvað kostaði Krýsu­vík?

Davíð Arnar Stefánsson skrifar

Á bæjarstjórnarfundi í Hafnarfirði í liðinni viku var samþykkt að selja HS orku nýtingarétt af auðlindum í Krýsuvík. Fyrirtækið hyggst reisa virkjun á svæðinu, virkja jarðvarma til raforkuframleiðsl, til sölu á heitu vatni til heimila og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og vinna grunnvatn eins og segir í samningi aðilanna. Í samningnum sem að óbreyttu gildir til ársins 2094 er í raun verið að selja Krýsuvík til einkafyrirtækis sem er að meirihluta í eigu erlendra fjárfesta. Af einhverjum ástæðum hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ákveðið að halda söluverðinu leyndu fyrir bæjarbúum og raunar almenningi öllum.

Auðlindir í Krýsuvík eru í almannaeigu en almenningur hefur aldrei verið spurður um hvort hann vilji selja þær og engin umræða hefur átt sér stað um hvort það er yfirhöfuð skynsamleg ráðstöfun til framtíðar að selja einkaaðilum einkaréttinn á framleiðslu og sölu á heitu vatni til almennings. Því síður hefur fólkið verið spurt hvort það vilji selja ósýnilegum og erlendum eigendum HS orku. En almenningur á heimtingu á að vita og bæjarstjórn er skyldug til að svara.

Hvað kostaði Krýsuvík?

Höfundur er oddviti VG í Hafnarfirði




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×