Erlent

Biden ber ekki vitni í eigin saka­­máli

Kjartan Kjartansson skrifar
Hunter Biden mætir til dóms í Wilmington í Delaware á föstudag. Hann segist saklaus af því að hafa keypt byssu ólöglega fyrir sex árum.
Hunter Biden mætir til dóms í Wilmington í Delaware á föstudag. Hann segist saklaus af því að hafa keypt byssu ólöglega fyrir sex árum. AP/Matt Slocum

Verjandi Hunters Biden, sonar Bandaríkjaforseta, segir að hann beri ekki vitni við réttarhöldin yfir honum vegna skotvopnalagabrots. Nánustu aðstandendur hans hafa borið vitni um glímu hans við fíkn við réttarhöldin.

Biden er ákærður fyrir að ljúga um fíkniefnaneyslu sína á opinberu eyðublaði þegar hann keypti sér skammbyssu árið 2018. Alríkislög banna fólki í virkri neyslu að kaupa skotvopn. Biden segist saklaus af ákærunni.

Saksóknarar lögðu mál sitt í dóm fyrir helgi en verjendurnir kölluðu meðal annars eiganda byssubúðarinnar þar sem Biden keypti byssuna og Naomi Biden, dóttur hans til vitnis. Hún, fyrrverandi eiginkona Biden, fyrrverandi kærasta og mágkona hafa lýst því fyrir dómi hvernig þær fundu oft fíkniefni og tól sem tengjast fíkniefnaneyslu heima hjá honum. Þær hafi haft áhyggjur af versnandi fíknivanda hans.

Biden tjáði dómaranum að hann hefði verið alsgáður frá árinu 2019, árinu eftir meint brot hans. Verjandi hans sagði kviðdómi við upphaf réttarhaldanna að Biden hefði ekki ætlað sér að blekkja yfirvöld vegna þess að hann hefði ekki litið á sjálfan sig sem fíkil á þeim tíma sem hann keypti byssuna.

Byssan var í vörslu Biden í ellefu daga, allt þar til ekkja bróður hans fann hana og henti henni. Refsiviðmið fyrir brot af því tagi sem Biden er ákærður fyrir hljóða upp á fimmtán til tuttugu og eins mánaðar fangelsi. Reuters-fréttastofan segir að  sakborningar hljóti þó oft vægari dóma.


Tengdar fréttir

Réttar­höld yfir syni Biden hafin

Alríkissaksóknarar lýstu Hunter Biden, syni Bandaríkjaforseta, sem dópista þegar réttarhöld yfir honum vegna skovopnalagabrota hófust í dag. Biden er ákærður fyrir að ljúga um fíknivanda sinn þegar hann keypti sér skammbyssu fyrir sex árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×