Erlent

Bólu­efni gegn flensu og Co­vid-19 langt á veg komið

Kjartan Kjartansson skrifar
Nýtt bóluefni gegn bæði Covid-19 og flensu væru góðar fréttir fyrir sprautuhrædda sem þyrftu þá aðeins eina sprautu í stað tveggja annars.
Nýtt bóluefni gegn bæði Covid-19 og flensu væru góðar fréttir fyrir sprautuhrædda sem þyrftu þá aðeins eina sprautu í stað tveggja annars. AP/Rogelio V. Solis

Lyfjafyrirtækið Moderna er langt komið með bóluefni sem dugar bæði gegn inflúensu og Covid-19. Bóluefnið gæti orðið algengilegt á næstu tveimur árum en samkeppnisaðilar vinna einnig að sambærilegu efni.

Þriðja stig tilrauna Moderna með nýja bóluefnið sýndi að það veitti jafngóða vernd gegn flensu og Covid og bóluefni sem eru eingöngu gegn öðrum hvorum veirusjúkdóminum, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC

Stephane Bancel, forstjóri Moderna, segir að hann vonist til þess að bóluefnið verði aðgengilegt árið 2026 en jafnvel strax á næsta ári.

Bæði Pfizer og BioNTech, sem framleiddu bóluefni gegn Covid-19, vinna einnig að því að þróa bóluefni sem virkar á bæði flensu og Covid-19.

Öll bóluefnin sem eru í þróun byggja á svonefndri mRNA-tækni en með henni vonast vísindamenn til þess að geta framleitt bóluefni hraðar en áður og uppfært þau tíðar til þess að þau virki á ólík afbrigði veira.

Einbeita sér að eldra fólki sem líklega til að fá bóluefni áfram

Nýja bóluefni Moderna er sagt vekja meira mótefnasvar í þátttakendum í tilraunum en eldri bóluefni, jafnvel meiri en núverandi örvunarefni fyrirtækisins gegn Covid-19. Bancel rekur það til þess að nýja bóluefnið sé hannað með nýjustu afbrigði veirunnar sem ganga um heimsbyggðina í huga.

Um átta þúsund manns taka þátt í tilraun Moderna. Allir þátttakendurnir eru yfir fimmtugu og helmingurinn eldri en 64 ára. Moderna segist miða rannsókn sína við eldri aldurshópa því þeir séu líklegastir til þess að vera boðið áfram upp á bóluefni en ætlunin sé að bjóða yngra fólki upp á efnið með tíð og tíma.

Aukaverkanir efnisins eru sagðar mildar og í samræmi við þær sem má vænta af öðrum bóluefnum, þar á meðal eymsli á stungustað og þreyta.                                     




Fleiri fréttir

Sjá meira


×