Fótbolti

Brighton vill fá þjálfara sem er yngri en nokkrir leik­menn liðsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fabian Hürzeler stýrði St. Pauli upp í efstu deild í Þýskalandi í fyrsta sinn í 13 ár.
Fabian Hürzeler stýrði St. Pauli upp í efstu deild í Þýskalandi í fyrsta sinn í 13 ár. Selim Sudheimer/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Brighton & Hove Albion er í viðræðum við Fabian Hürzeler um að taka við sem þjálfari liðsins.

Hürzeler er þjálfari þýska félagsins St. Pauli og undir hans stjórn tryggði liðið sér sæti í þýsku úrvalsdeildinni í vor. Það sem vekur kannski mesta athygli við Hürzeler er að hann er fæddur árið 1993 og því aðein 31 árs gamall.

Brighton er í stjóraleit eftir að Roberto de Zerbi yfirgaf félagið að loknu síðasta tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Félögin tvö, Brighton og St. Pauli, hafa þegar hafið viðræður um Hürzeler og enska félagið hefur nú þegar tryggt atvinnuleyfi fyrir þjálfarann.

Samkomulag milli félaganna er þó ekki í höfn.

Þjóðverjinn Hürzeler, sem er þó fæddur í Bandaríkjunum, stýrði St. Pauli til sigurs í þýsku B-deildinni og kom liðinu upp í efstu deild í fyrsta sinn í 13 ár. Taki hann við Brighton verður hann yngsti þjálfari ensku úrvalsdeildarinnar frá því að hún var stofnuð árið 1992, ári áður en Hürzeler fæddist.

Þá má einnig geta þess að Hürzeler er enn töluvert yngri en nokkrir af leikmönnum Brighton. Þar á meðal eru Lewis Dunk og Danny Welbeck sem eru 32 og 33 ára og James Milner sem er orðinn 38 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×