Erlent

Fram­kvæmda­stjórn ESB gefur Úkraínu grænt ljós

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Volodómír Selenskí, forseti Úkraínu.
Volodómír Selenskí, forseti Úkraínu. getty

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur mælt með því að hefja formlegar aðildarviðræður milli sambandsins og Úkraínu.

Financial Times greinir frá þessu og hefur eftir heimildarmönnum innan sambandsins að framkvæmdastjórnin hafi í hyggju að koma aðildarviðræðum af stað áður en Ungverjar taka forsæti innan leiðtogaráðsins, sem bauð bæði Úkraínu og Moldóvu að hefja viðræður um inngöngu í lok síðasta árs. 

Úkraína sótti um aðild að ESB í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Úkraína hlaut stöðu umsóknarríkis á mettíma í júní það ár. 

Financial Times greinir frá því að framkvæmdastjórnin telji Úkraínu uppfylla þau skilyrði sem sett voru fyrir viðræðum, þar á meðal um vernd gegn spillingu og hagsmunaskrá opinberra starfsmanna, svo eitthvað sé nefnt.

Georgía sem hlaut stöðu umsóknarríkis á síðasta ári, uppfyllir hins vegar ekki skilyrðin. Georgía samþykkti nýverið umdeild fjölmiðlalög sem gagnrýnendur telja þrengja mjög að frelsi fjölmiðla. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×