Neytendur

Reykja­vík Marketing sektað vegna full­yrðinga um vörur frá Lifewa­ve

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vörurnar frá Lifewave voru sagðar geta læknað hin ýmsu vandamál og yngt fólk til muna.
Vörurnar frá Lifewave voru sagðar geta læknað hin ýmsu vandamál og yngt fólk til muna. Lifewave

Neytendastofa hefur sektað fyrirtækið Reykjavík Marketing fyrir ósannaðar fullyrðingar um vörur seldar undir merkinu Lifewave, að því er fram kemur á vefsíðu stofnunarinnar.

Samkvæmt ákvörðun Neytendastofu rak Reykjavík Marketing ehf. vefsíðuna healthi.is, þar sem umræddar vörur voru auglýstar og seldar. Neytendastofa gerði athugasemdir við sautján fullyrðingar um vörurnar og benti einnig á að svo virtist sem allar upplýsingar vantaði um þjónustuveitanda.

Fullyrt var á vefsíðunni að virkja mætti eigin stofnfrumur með notkun plástra frá Lifewave, að „4.000 gen“ myndu byrja að „endurstillast“ innan 24 klukkustunda og jafnvel þótt notandinn finndi ekki fyrir því myndu stofnfrumurnar endurnýja innri líffæri og vef.

Um kremið Alavida sagði, svo dæmi sé tekið:

„Alavida er bylting til að viðhalda unglegri og fallegri húð og nýtur algjörar sérstöðu því árangurinn kemur innan frá. Alavida eykur framleiðslu lífsnauðsynlegra peptíða og öflugustu andoxunarefna líkamans sem minnka verulega með aldrinum. Eykur Epithelamine sem heilaköngullinn framleiðir, eykur m.a. glútaþíón (afeitrari líkamans) og SOD (Sindurefna fangari líkamans), þar af leiðir bætir Alavida heilsuna almennt sem kemur vel fram á húðinni, styrkir ónæmiskerfið og dregur verulega úr öldrunareinkennum. 3ja mánaða reynslutími þ.e.a.s. 100% endurgreiðslutrygging (Áskrift / Preferred Customer).“

Lokuðu síðunni en brotið sagt alvarlegt

Forsvarsmenn Reykjavík Marketing svöruðu fyrirspurn Neytendastofu um sannanir fyrir fullyrðingunum með því að senda stofnuninni fjölda skráa sem innihéldu þær rannsóknir sem Lifewave byggir fullyrðingar sínar á. Þá var áréttað að engin sala færi fram á síðunni heldur ætti hún sér stað beint af Lifewave.

Neytendastofa ítrekaði hins vegar að það væri mat stofnunarinnar að sjónarmið um að healthi.is væri upplýsingavefur en ekki sölusíða gerðu það ekki að verkum að hún þyrfti ekki að uppfylla skilyrði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Þá þyrfti fyrirtækið að geta vísað beint á sannanir fyrir fullyrðingunum; þannig þyrfti að koma fram hvar og í hvaða rannsókn sannanir væri að finna fyrir hverri fullyrðingu fyrir sig.

Reykjavík Marketing tilkynnti í kjölfarið að tekin hefði verið ákvörðun um að stöðva verkefnið og taka síðuna niður. Stofnunin ætti því ekki að gera ráð fyrir frekari svörum af hálfu þess.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að fullyrðingarnar um Lifewave-vörurnar veittu rangar upplýsingar um helstu einkenni varanna og að þær væru líklegar til að valda því að neytendur tækju ákvarðanir sem þeir hefðu annars ekki tekið.

Þá væru þær líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytandans.

Félagið hefði með fullyrðingum sínum haldið því ranglega fram að vörurnar gætu læknað sjúkleika eða röskun á líffærastarfsemi. Brot Reykjavík Marketing væri alvarlegt en að teknu tilliti til allra þátta, meðal annars þess að síðunni hefði verið lokað, væri hæfileg sekt 100 þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×