Sport

Hvar er Conor McGregor? | „Vil ekki vera boð­beri slæmra frétta“

Aron Guðmundsson skrifar
Bardagi Conor McGregor við Michael Chandler á að marka endurkomu hans í bardagabúrið.
Bardagi Conor McGregor við Michael Chandler á að marka endurkomu hans í bardagabúrið. Vísir/Getty

Lítið hefur sést til írska vél­byssu­kjaftsins Conor McGregor, bar­daga­kappa UFC, undan­farna daga og þykir það mjög svo ó­venju­legt. Sér í lagi þar sem að að­eins nokkrar vikur eru í endur­komu hans í bar­daga­búrið. Blaða­manna­fundi hans og verðandi and­stæðings hans í búrinu, Michael Chandler var af­lýst með mjög svo skömmum fyrir­vara í upp­hafi vikunnar og hafa miklar get­gátur farið af stað um á­stæðu þess. Flestar þeirra beinast að hinum skraut­lega Conor McGregor.

Málið, fjar­vera Conor McGregor, var til um­ræðu í hlað­varps­þættinum Good Guy/Bad Guy en þangað voru mættir Daniel Cormi­er og Chael Sonnen, báðir þekkt nöfn og fyrr­verandi bar­daga­kappar í sögu UFC.

McGregor og Chandler þjálfuðu sitthvort liðið í The Ultimate Fighter, raunveruleikaþáttaröð UFC sambandsins og má segja að sú þáttaröð hafi lagt grunninn að komandi bardaga þeirra undir lok júnímánaðarVísir

Ein­hverjir hafa fleygt því fram að blaða­manna­fundi McGregor og Chandler hafi verið af­lýst vegna þess að McGregor sé að glíma við smá­vægi­leg meiðsli og að UFC sé að leita að öðrum and­stæðingi fyrir Chandler.

Sonnen telur þetta hins vegar ekki vera stöðuna. McGregor hafi kúplað sig frá öllum fjöl­miðla­við­burðum fyrir bar­dagann vegna þess að hann vill ein­beita sér að undir­búningi fyrir bar­dagann.

Bardagi McGregor við Chandler markar endurkomu þess írska í búrið en hann barðist síðast í júlí árið 2021 gegn Dustin Poirier. Sá bardagi fór ekki vel fyrir McGregor sem fótbrotnaði. Óhætt er að segja að McGregor sé stærsta nafn UFC frá upphafi og því töluvert sem er undir í bardaganum fyrir UFC.

„Ég trúi ekki þeim orð­rómum sem hafa verið á kreiki undan­farið,“ sagði Sonnen í Good Guy/Bad Guy. „Ég held að kannski í fyrsta sinn á sínum ferli sé McGregor með fulla ein­beitingu á bar­daganum fram­undan. Með því á ég við að hann er farinn að segja nei við fullt af hlutum.

Það var ekki bara blaða­manna­fundinum sem var af­lýst. Heldur einnig öllum fjöl­miðla­við­burðum Conor McGregor. Það fær mig til þess að halda að Írinn sé mjög ein­beittur.“

Hefur áhyggjur

Daniel Cormi­er, sem háð hefur marga bar­dagana hjá UFC, er ekki á sama máli og Sonnen. Cormi­er hefur á­hyggjur af komandi bar­daga milli McGregor og Chandler og hvort að hann muni yfir höfuð eiga sér stað.

„Ég vil ekki vera boð­beri slæmra frétta en ég get sagt ykkur svo­lítið um UFC. Dana White, for­seti sam­bandsins, á ekki erfitt með það að öskra og vera leiðin­legur við blaða­menn og hann á ekki erfitt með að valda fjöl­miðlum von­brigðum.“ 

„Hins vegar er Dana White ekki hrifinn af því að bregðast stuðnings­mönnum og á­huga­fólki um UFC. Þegar að blaða­manna­fundinum var af­lýst sá maður stuðnings­fólk UFC verða reitt á sam­fé­lags­miðlum. Það eru von­brigði fyrir White.

Ég hef haft sam­band við marga innan UFC og reynt að komast að því hvað er að eiga sér stað. Þar halda allir spilunum þétt að sér. Það segir mér að fólk sé á­hyggju­fullt.“

UFC 303 bardagakvöldið á T-Mobile leikvanginum í Las Vegas, þar sem aðalbardagi kvöldsins er á milli Conor McGregor og Michael Chandler, fer fram aðfaranótt sunnudagsins 30.júní næstkomandi. Bardagakvöldið verður sýnt í beinni útsendingu á Vodafone Sport.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×