Tónlist

„Pínu erfitt fyrir við­kvæman lista­mann“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Kári Egilsson frumsýnir hér tónlistarmyndband við lagið In The Morning.
Kári Egilsson frumsýnir hér tónlistarmyndband við lagið In The Morning. Vísir/Vilhelm

„Maður getur nálgast ýmsar tilfinningar í gegnum tónlistina, stundum góðar stundum slæmar,“ segir tónlistarmaðurinn Kári Egilsson, sem er nýkominn heim frá Englandi þar sem hann kom fram á hátíðinni Great Escape. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðastliðið ár í lífi Kára en hann vinnur nú að annarri plötu sinni og frumsýnir splunkunýtt tónlistarmyndband hér í pistlinum.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið við lagið In The Morning:

Eftirtaldir komu að gerð myndbandsins:

Leikstjórn: Ernir Ómarsson. Aðstoðarleikstjórn: Matthías Kristinsson Schram. Klipping: Ernir Ómarsson og Matthías Kristinsson Schram. Upptökustjórn: Svava Lovísa Aðalsteinsdóttir. Aðstoð við upptökur: Úlfur Arnalds. Ljós: Breki Hrafn Ómars. Runner: Björn Óttar Oddgeirsson. Smink: Victoría Lazar Sorinsdóttir.

Hlakkar til að komast í smá frí

Kári hefur komið fram á tónleikum hérlendis og erlendis síðastliðna mánuði.

„Ég var svo valinn Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum sem var mikill heiður.“

Hann segir að verðlaunin hafi verið mjög kærkomin þó að það hafi verið smá yfirþyrmandi að meðtaka þau.

Samhliða giggunum er Kári að vinna að nýrri plötu og hefur nú þegar gefið út nokkur lög af henni.

„Ég er búinn að vera að vinna mikið og ég hlakka til að komast út í smá frí í sumar. Þetta er svolítið mikið hark, mikið sem þarf að hugsa um eins og útgáfa, tónleikahald og upptökur. Það er margt sem maður kannski áttar sig ekki á fyrst en þetta er lærdómsríkt og skemmtilegt.“

Kári hefur komið víða að í tónlistinni.Saga Sig

Einmanaleiki, vanlíðan og gleði

Tónlistarmyndbandið hér að ofan fylgir að sögn Kára þema lagsins.

„Þetta fjallar svolítið um vanlíðan á morgnana og meiri skemmtun á kvöldin. Ég byrja á að vakna einn og einmana, fer að spila á píanóið og svo um kvöldið kemur hljómsveitin til mín og er að fíflast með mér, við borðum pizzu og höfum gaman. Það passar vel við þemað,“ segir Kári brosandi.

„Að einhverju leyti byggi ég tónlistina á minni reynslu og maður tæklar ýmislegt á gamansaman hátt. Maður getur nálgast ýmsar tilfinningar í gegnum tónlistina, stundum góðar og stundum slæmar. Það er góð reynsla,“ segir Kári og bætir við að framan af hafi hann verið í jazzinum þar sem það eru engir textar. 

„Það er svolítið gott að geta tjáð sig í gegnum texta og það eru nokkrir textar á nýju plötunni sem díla við sammannlegar tilfinningar á borð við einmanaleika, vanlíðan og auðvitað líka gleði inni á milli. Ég reyni að hafa jafnvægi í þessu.“

Kári reynir að halda jafnvægi á tilfinningum í textum sínum.Aðsend

Forðast beinan innblástur

Hann á sér uppáhalds lag á plötunni sem er óútgefin kraftmikil ballaða og segist hann hlakka mikið til að gefa plötuna út. Aðspurður hvaðan hann sæki innblásturinn svarar Kári:

„Þegar að ég er að semja og taka upp forðast ég að hafa beinan innblástur en ég reyni að kynna mér tónlist, bæði gamla og nýja, og maður fær auðvitað innblástur þaðan. Þegar að það kemur að því að taka upp forðast maður samt að stæla eitthvað ákveðið.“

Hann segist hlusta meira á tónlist þessa dagana þar sem hann er ekki á fullu í upptökum.

„Þegar að maður er búinn að vera að taka upp alla daga og koma fram þá þarf maður að hvíla eyrun aðeins. Mér finnst sömuleiðis gott að slaka á inn á milli, horfa á góða mynd eða fara í frí einstaka sinnum og ferðast.“

Kára finnst gaman að vinna hörðum höndum að tónlistinni og taka sér svo kærkomin frí.Aðsend

„Pínu erfitt fyrir viðkvæman listamann“

Kári fer á hverju sumri með fjölskyldu sinni til eyjunnar Folegandros á Grikklandi.

„Ég hef farið þangað síðan að ég var eins árs og þekki eiginlega alla á eyjunni. Það er yndislegur staður og þetta er lítil eyja, maður þekkir vel til þar.“

Samhliða væntanlegu og kærkomnu fríi er nóg á döfinni hjá honum.

„Er að vinna að nýrri plötu, útgáfutónleikum og vonandi fleiru. Ég hlakka sömuleiðis til að fara á fleiri svokallaðar showcase hátíðir erlendis. Ég var í einmitt í Brighton í Englandi fyrir tveimur vikum á svoleiðis hátíð sem heitir Great Escape

Það var heilmikil reynsla, engin hljóðprufa og maður varð að demba sér svolítið í djúpu laugina. Við mættum á tengslamyndunarfundi að hitta bransafólk og það er kannski pínu erfitt fyrir viðkvæman listamann en maður verður að koma sér inn í þetta og þetta er mjög lærdómsríkt.“

Elskar að koma fram

Kári segist njóta sín vel á sviðinu.

„Ég elska það, mér finnst eins og áhorfendurnir gefi mér kraft og ég verð í rauninni ekkert stressaður. Mér finnst líka með aukinni reynslu af tónleikahaldi síðastliðið ár að ég hafi batnað sem performer og hljómsveitin hefur náð að slípast vel saman. Þetta er heilmikið rót og skipulag.“

Að lokum segist Kári spenntur fyrir framhaldinu og er óhræddur við að vera í stöðugri þróun.

„Ég er mjög spenntur fyrir næstu plötu og mér finnst svolítið þróaðri en sú fyrri og jafnvel betri og enn nútímalegri. Ég er búinn að þroskast af ferlinu og læra betur á stúdíóið og sömuleiðis erum við Albert Finnbogason farnir að vinna enn betur saman en hann gerði líka fyrstu plötuna með mér.“

Hér má hlusta á Kára Egils á streymisveitunni Spotify og hér á Youtube. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×