Erlent

Fjórir látnir eftir mikil flóð í suður­hluta Þýska­lands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maður og kona létust eftir að það flæddi inn í kjallara þar sem þau dvöldu.
Maður og kona létust eftir að það flæddi inn í kjallara þar sem þau dvöldu. AP/Boris Roessler

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, heimsótti bæinn Reichertshofen í gær en að minnsta kosti fjórir eru látnir eftir mikil flóð í Bæjaralandi. Kanslarinn segir hörmungarnar til marks um nauðsyn þess að grípa til aðgerða í loftslagsmálum.

Nokkurra er saknað og þúsundir hafa neyðst til að flýja heimili sín eftir úrhelli um helgina. Lögregluyfirvöld í Baden-Württemberg sögðu í gær að maður og kona hefðu fundist látinn í kjallara húss í Shorndorf. Þá fannst 43 ára gömul kona látinn í Schrobenhausen.

Sá fjórði sem lést var slökkviliðsmaður, sem varð fyrir slysi þegar hann freistaði þess að koma öðrum til bjargar.

Neyðarástandi var lýst yfir í Regensburg og herinn kallaður til. 

Kanslarinn heimsótti flóðasvæðin í gær.AP/Sven Hoppe

Scholz sagði flóð á borð við þau sem Þjóðverkjar glímdu nú við væru ekki lengur „einstakir viðburðir“ heldur væru þau vísbending um stærra vandamál og viðvörun sem menn þyrftu að meðtaka.

Markus Söeder, ríkisstjóri Bæjaralands, sagði að það væri ómögulegt að tryggja sig að fullu gegn loftslagsbreytingum. „Það eru atburðir að eiga sér stað hér sem hafa aldrei átt sér stað áður,“ sagði hann.

Áhyggjur eru nú uppi vegna samgönguinnviða í tengslum við Evrópukeppnina í knattspyrnu, sem hefst 14. júní næstkomandi. Engir leikir verða spilaðir á flóðasvæðunum en áhrif flóða á samgöngur gætu torveldað ferðalög áhorfenda.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×