Innlent

Vilja sam­starf við Norður­löndin vegna fólks sem vill ekki fara

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa að tillögunni.
Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa að tillögunni. Alþingi

Fjórir þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi feli dómsmálaráðherra að leita samstarfs við kollega sína á Norðurlöndum um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið umsókn sinni synjað.

Um er að ræða þingmenn Sjálfstæðisflokksins; Bryndísi Haraldsdóttur, Vilhjálm Árnason, Njál Trausta Friðbertsson og Diljá Mist Einarsdóttur.

Í greinargerð með tillögunni segir að um sé að ræða að dómsmálaráðherra leiti samninga við stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum um samstarf um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun en hafa ekki viljað yfirgefa landið.

Markmiðið sé að samræma betur meðhöndlun umræddra mála þegar upprunaríki tekur ekki á móti ríkisborgara sínum þegar um þvingaða endursendingu sé að ræða.

Nú séu um 169 einstaklingar sem falla þarna undir skráðir „finnst ekki“ í LÖKE.

„Mikilvægt er að fyrir liggi skýr málsmeðferð þegar einstaklingar dvelja ólöglega á Íslandi og geta ekki eða vilja ekki fara af sjálfsdáðum af landi brott. Í þessu samhengi er þess að vænta að frumvarp um vistun útlendinga í lokaðri búsetu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum verði lagt fyrir Alþingi haustið 2024,“ segir í greinargerðinni.

„Tillögu þessari er ætlað að brúa bilið þangað til slík lög taka gildi, þannig að íslensk stjórnvöld geti nýtt úrræði annarra Norðurlanda til að tryggja umsækjendum, sem fengið hafa synjun, örugga búsetu fram að brottflutningi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×