Erlent

Efndi til þrælauppboðs í kennslu­stund

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tveir svartir nemendur voru beðnir um að standa á meðan samnemendur þeirra lögðu mat á líkamlega eiginleika þeirra, meðal annars styrk og tannheilsu.
Tveir svartir nemendur voru beðnir um að standa á meðan samnemendur þeirra lögðu mat á líkamlega eiginleika þeirra, meðal annars styrk og tannheilsu. Getty

Skólayfirvöld í Massachusetts í Bandaríkjunum hafa sent grunnskólakennara í tímabundið launað leyfi eftir að hann efndi til „þrælauppboðs“ í kennslustund.

Atvikið átti sér stað í janúar síðastliðnum þegar kennarinn var að kenna tíu ára börnum um sögu Suðurríkjanna. Bað hann tvö svört börn um að standa upp og efndi til umræða meðal nemendahópsins um líkamlega eiginleika barnanna tveggja, til að mynda styrk þeirra og tannheilsu.

Annað atvik átti sér stað í apríl en þá las kennarinn úr bók sem er ekki í kennsluskránni og notaði nirðandi orðalag sem var ekki að finna í bókinni.

Foreldrar áttu fund með kennaranum og skólastjóra Margaret A. Neary School í Southborough og daginn eftir tók kennarinn reiði sína út á nemandanum sem hafði tilkynnt um atvikin. Skólastjórinn var einnig sendur í leyfi í kjölfarið.

Yfir 65 prósent nemenda við skólann eru hvít og aðeins tvö prósent svört.

Það vekur athygli að þetta er ekki í fyrsta sinn sem atvik rata í fréttir vestanhafs þar sem þrælauppboð eru „sett á svið“.

Í mars síðastliðnum var greint frá því að yfirvöld í Massachusetts væru að skoða að gefa út ákærur á hendur sex unglingum sem höfðu gerst sek um grófa hatursorðræðu á Snapchat og efnt til gervi-uppboðs á tveimur nemendum.

Þá greindu skólayfirvöld í Norður-Karólínu frá þvi árið 2022 að þau hygðust endurskoða skólareglur og agaviðurlög eftir að hvítir nemendur þóttust selja svarta samnemendur sína á uppboði.

New York Times greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×