Handbolti

Meistara­deildar­titillinn til Ung­verja­lands

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lið Györi fagnar titlinum í dag.
Lið Györi fagnar titlinum í dag. Vísir/Getty

Ungverska liðið Györi tryggði sér í dag sigur í Meistaradeild Evrópu í handknattleik eftir sigur á þýska liðinu Bietigheim í úrslitaleik. 

Lið Györi hefur verið einn af risunum í evrópskum handbolta síðustu árin og vann meðal annars Meistaradeildina fimm sinnum á árunum 2013-2019 en ekki farið með sigur af hólmi síðan þá. 

Saga Bietigheim er hins vegar styttri en liðið hóf keppni í Þýskalandi árið 2010, varð meistari fyrst árið 2017 og orðið Þýskalandsmeistari síðustu þrjú árin.

Györi tryggði sér sæti í úrslitum með því að leggja danska liðið Esbjerg 24-23 í undanúrslitum en Bietigheim vann Metz 36-29. Það var ungverska liðið sem var sterkara frá upphafi í leiknum í dag. Györi náði 8-3 forskoti í upphafi leiks og leiddi 17-12 í hálfleik.

Munurinn fór minnst niður í fjögur mörk í nokkur skipti en leikurinn varð í raun aldrei spennandi í síðari hálfleik. Györi fagnaði 30-23 og vann þar með sinn sjötta Meistaradeildartitil.

Ana Gros og Kari Brattset Dale voru markahæstar hjá Györi með sex mörk og Silje Solberg var frábær í markinu með 42% markvörslu. Sofia Hvenfelt var markahæst hjá Bietigheim með 5 mörk.

Í leiknum um bronsið vann Esbjerg 37-33 sigur á Metz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×