Veður

Ill­viðri miðað við árs­tíma

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það verður líklega nokkuð blautt næstu daga.
Það verður líklega nokkuð blautt næstu daga. Vísir/Vilhelm

Næstu daga er útlit fyrir óvenjulegt illviðri miðað við árstíma. Gul viðvörun er í gildi þar til á miðnætti 5. júní miðvikudag. Hvatt er til þess að huga að lausamunum sem geta fokið. Ferðalög geti verið varasöm, sérílagi á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að snjóþekja geti sest á vegi á Norður- og Austurlandi, einkum fjallvegi og því þurfi að huga að því að koma búfénaði í skjól. Útivistarfólki er sömuleiðis bent á að fara yfir áætlanir sínar með tilliti til kulda og vosbúðar sem óveðrinu fylgir.

Í dag fer lægðin til austurs fyrir norðan land í dag. Það verður því vestlæg átt, víða kaldi eða stinningskaldi og skúrir, en þurrt að kalla suðaustanlands. Hiti verður á bilinu sjö til 14 stig, mildast fyrir austan, en kólnar í kvöld.

Hún dýpkar svo talsvert í kvöld og nótt. Á morgun tekur lægðin sér stöðu fyrir norðaustan land. Þá verður köld norðlæg átt á landinu, átta til fimmtán metrar á sekúndu framan degi og skúrir eða él, en yfirleitt úrkomulítið sunnan- og vestantil.

Síðdegis fer að hvessa á Norður- og Austurlandi og það bætir í úrkomu. Þá verður víða hvassviðri eða stormur á þeim slóðum seint annað kvöld og slydda eða snjókoma.

Á þriðjudag verður allhvöss eða hvöss norðan- og norðvestanátt og áfram kalsa úrkoma norðan- og austanlands, líklega rigning eða slydda við sjávarmál en snjókoma inn til landsins. Það er síðan litlar breytingar að sjá í framhaldinu, nýjustu spár gera ráð fyrir linnulitlu norðan illviðri fram eftir vikunni, og útlit fyrir að veðrið skáni ekki að ráði fyrr en á föstudag.

Víðast hvar er greiðfært um landið en eitthvað um framkvæmdir sem getur haft áhrif á færð. Hægt er að sjá nýjustu tilkynningar inn á veg Vegagerðarinnar. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Norðan og norðvestan 8-15 m/s og skúrir eða él, en þurrt að kalla sunnanlands. Hiti 2 til 10 stig, mildast syðst. Hvessir undir kvöld með rigningu, slyddu eða snjókomu á Norður- og Austurlandi og kólnar heldur.

Á þriðjudag:

Norðan og norðvestan 13-20 á Norður- og Austurlandi og rigning nærri sjávarmáli, annars slydda eða snjókoma. Hiti 0 til 4 stig. Yfirleitt þurrt sunnan- og vestantil og hiti að 9 stigum yfir daginn.

Á miðvikudag:

Norðan og norðvestan 10-18. Rigning, slydda eða snjókoma með köflum á Norður- og Austurlandi, en lengst af þurrt sunnan- og vestanlands. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:

Hvöss norðvestan- og norðanátt og rigning eða slydda, en snjókoma á heiðum. Úrkomulítið sunnantil. Hiti 1 til 10 stig, mildast syðst.

Á föstudag:

Minnkandi norðanátt og skúrir eða slydduél, en þurrt að kalla sunnanlands. Hlýnar heldur.

Á laugardag:

Norðvestlæg átt og rigning eða slydda, en dálítil væta sunnan- og vestantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×