Fótbolti

Pablo fékk út­kall frá lands­liðs­þjálfara El Salvador

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pablo Punyed í leik með Víkingi í Bestu deild karla í sumar.
Pablo Punyed í leik með Víkingi í Bestu deild karla í sumar. Vísir/Diego

Víkingurinn Pablo Punyed er á leiðinni í langt ferðalag eftir að hafa verið valinn í landsliðhóp El Salvador.

Víkingar spila við Fylki í Bestu deildinni á morgun en svo tekur við landsleikjagluggi.

Punyed er í hópi El Salvador fyrir leiki á móti Sankti Vinsent og Grenadíneyjum annars vegar og Púertó Ríkó hins vegar. David Dóniga er nýr þjálfari en hann tók við liðinu á þessu ári.

Þetta eru fyrstu leikirnir í undankeppni HM 2026. Hin liðin í riðlinum eru Súrínam og Angvilla. Tvær efstu þjóðirnar komast í næstu umferð.

Fyrri leikurinn er á heimavelli á móti Púertó Ríkó 6. júní og sá síðari verður spilaður í Súrínam þar sem Sankti Vinsent og Grenadíneyjar spila þennan heimaleik sinn.

Sankti Vinsent og Grenadíneyjar eru eyríki í Karíbahafi og hluti Kulborðseyja, syðst í Litlu-Antillaeyjaklasanum.

Hinn 34 ára gamli Pablo á að baki þrjátíu landsleiki fyrir El Salvador og hefur skorað fjögur mörk. Hann var með liðinu í þremur landsleikjum í marsmánuði og skoraði þá í 1-1 jafntefli á móti Bonaire.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×