Erlent

Fjöldi loft­á­rása á orku­ver víðs­vegar um Úkraínu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Íbúar í Kænugarði verða ítrekað varir við rafmagnsleysi vegna árásanna.
Íbúar í Kænugarði verða ítrekað varir við rafmagnsleysi vegna árásanna. getty

Rússar gerðu fjölda loftárása, sem beindust að úkraínskum orkuverum og öðrum sambærilegum innviðum, í morgun. Yfirvöld í fimm héröðum Úkraínu hafa greint frá árásum.

Þar á meðal Ukrenergo, sem rekur dreifikerfi landsins. Í tilkynningu Ukrengo kemur fram að innviðir þeirra í austur-Donetsk héraði, suðaustur Zaporizhzhia og Dnipropetrovsk hafi orðið fyrir árásunum.

„Í morgun voru loftárásir gerðar á ný á úkraínska orkuinnviði. Þetta er sjötta árásin frá því í byrjun mars. umfangsmikil, flókin flugskeyta- og drónaárás sem er beint að orkuinnviðum borgaranna,“ segir í tilkynningu Ukrenergo.

Samkvæmt upplýsingum úkraínskra yfirvalda tókst að skjóta niður 35 af þeim 53 flugskeytum sem skotið var og 46 af þeim 47 drónum sem fóru í loftið.

DTEK, stærsta einkarekna orkufyrirtæki Úkraínu, segir í tilkynningu að tvö varmaorkuver þeirra hafi orðið fyrir „alvarlegu tjóni“.

Slökkvilið hafa unnið hörðum höndum í morgun við að ráða niðurlögum elda sem kviknuðu í kjölfar loftárásanna. Enn hefur ekki verið greint frá mannfalli í árásunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×