Íslenski boltinn

„Eftir að við fengum á okkur fyrsta markið slökktum við á okkur“

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Heimir Guðjónsson var ekki sáttur með hvernig hans menn köstuðu sigrinum frá sér gegn Fram.
Heimir Guðjónsson var ekki sáttur með hvernig hans menn köstuðu sigrinum frá sér gegn Fram. vísir/anton

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH í fótbolta, var svekktur eftir að hafa gert jafntefli við Fram í 9. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Lokatölur 3-3.

„Við spiluðum gríðarlega vel í fyrri hálfleik og komumst sanngjarnt yfir. Svo gerðu þeir þrefalda skiptingu í hálfleik og komu inn með smá læti og voru að setja langa bolta og voru miklu betri en við í seinni boltunum. Þeir voru að skipta löngu boltunum á milli vængja og eftir að við skoruðum þriðja markið slökktum við alveg á okkur, héldum að leikurinn væri búinn en leikurinn í þessu tilfelli var 94 mínútur. Það eru auðvitað vonbrigði að missa þetta í jafntefli, við þurftum ekki að gera það,“ sagði Heimir eftir leikinn.

FH-ingar voru komnir þremur mörkum yfir en í seinni hálfleik misstu þeir hausinn og Framara gengu á lagið.

„Þeir tóku boltann og settu hann í loftið og fjölguðu í framlínunni. Við réðum illa við það, við breyttum og fórum í fimm manna vörn. Eins og fyrsta markið þá eru tveir á einn á Bödda og samskiptaleysi í vörninni, þannig við ákveðum að fjölga. Svo fáum við á okkur aukaspyrnumark í markmannshornið og svo fyrirgjöf þar sem við erum ekki að dekka mennina okkar. Eftir að við fengum á okkur fyrsta markið þá slökktum við á okkur.“

Framundan er landsleikjahlé og ætlar Heimir að gefa strákunum sínum smá frí og fara svo yfir hvað gekk vel og illa.

„Nú förum við í smá frí og svo setjumst við eins og við gerum alltaf og förum yfir þennan leik, hvað við gerðum vel og hvað við getum gert betur,“ sagði Heimir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×