Körfubolti

Bene­dikt tekinn við Stólunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benedikt Guðmundsson handsalar samninginn við Tindastól.
Benedikt Guðmundsson handsalar samninginn við Tindastól. tindastóll

Benedikt Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Tindastóls í körfubolta.

Fyrr í vikunni var greint frá því að Pavel Ermolinskij væri hættur sem þjálfari Tindastóls. Hann fór í veikindaleyfi í mars og Svavar Atli Birgisson stýrði liðinu út tímabilið.

Benedikt er einn reyndasti þjálfari landsins en hann hætti hjá Njarðvík í vor eftir þriggja ára starf. Hann hefur einnig þjálfað karlalið KR, Grindavíkur, Þórs Þ. og Þórs Ak. og kvennalið KR. Þá er Benedikt þjálfari kvennalandsliðsins. Hann var valinn þjálfari ársins í Subway deild karla á lokahófi KKÍ í dag.

„Ég er ofboðslega spenntur fyrir þessu verkefni og hlakka til til að vinna með metnaðarfullri stjórn, sterkum leikmönnum og stuðningsfólki sem hefur tekið allt sitt framlag á annað level hér á landi. Ástríðan sem heimamenn hafa fyrir körfubolta er sú mesta á landinu og ég mun gera mitt allra besta til að móta lið sem Skagfirðingar geta verið stoltir af,“ sagði Benedikt í tilkynningu Tindastóls.

Tindastóll endaði í 7. sæti Subway deildarinnar á síðasta tímabili og tapaði fyrir Grindavík, 3-1, í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. Þá komst Tindastóll í bikarúrslit þar sem liðið tapaði fyrir Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×