Upp­gjörið: Víkingur R. - Fylkir 5-2 | Öruggt hjá meisturunum eftir erfiða byrjun

Hinrik Wöhler skrifar
djuric6
Vísir/Hulda Margrét

Úrslitin voru eftir bókinni í Víkinni í kvöld þegar efsta lið Bestu deildar karla mætti því neðsta. Víkingur tók á móti Fylki og sigruðu heimamenn 5-2 í ansi fjörugum leik.

Víkingar voru ekki vaknaðir í upphafi leiks en eftir tæpa mínútu átti Þórður Gunnar Hafþórsson hnitmiðaða sendingu inn í vítateig Víkinga þar sem Benedikt Daríus Garðarsson var aleinn og óvaldaður. Hann tók boltann viðstöðulaust og skoraði fram hjá Pálma Arinbjörnssyni í marki Víkinga. Slakur varnarleikur hjá Íslandsmeisturunum og Fylkismenn voru strax komnir yfir í upphafi leiks.

Aron Elís Þrándarson jafnaði leikinn fyrir Víkinga á 14. mínútu. Karl Friðleifur Gunnarsson tók aukaspyrnu sem rataði inn í vítateiginn og náði Aron að leggja boltann fyrir sig og kom honum fram hjá Ólafi Kristófer Helgasyni í marki Fylkis. Árbæingar vildu fá dæmda hendi á Aron Elís en fengu ekki og markið stóð.

Skömmu síðar voru heimamenn komnir yfir en Erlingur Agnarsson skoraði á 18. mínútu leiksins. Ari Sigurpálsson átti lága sendingu inn í vítateiginn frá vinstri en Orri Sveinn Segatta náði ekki að koma boltanum frá og Erlingur gat ekki annað nema skorað í tómt markið.

Víkingar leiddu 2-1 í hálfleik en Fylkismenn gátu verið sáttir með frammistöðuna en voru líklegast óánægðir með að vera marki undir eftir umdeilt mark Víkinga.

Gestirnir byrjuðu að krafti í síðari hálfleik og fengu hornspyrnu á 52. mínútu. Arnór Breki Ásþórsson spyrnti boltanum inn á markteiginn og þar var Orri Sveinn Segatta á auðum sjó og skallaði boltann í mark Víkinga. Allt jafnt í Víkinni á ný.

Helgi Guðjónsson kom inn á í hálfleik og var ekki lengi að koma sér á blað. Hann fékk frábæra sendingu inn í vítateiginn frá Ara Sigurpálssyni á 58. mínútu og skaut að marki Fylkis sem Ólafur Kristófer varði vel. Helgi náði hins vegar frákastinu og ýtti boltanum með herkjum yfir marklínuna.

Heimamenn voru ekki hættir og Ari Sigurpálsson bætti við fjórða marki Víkinga á 66. mínútu. Karl Friðleifur Gunnarsson kom með hættulega sendingu inn í vítateiginn og skoppaði boltinn í markteignum áður en Ari náði til hans og skallaði knöttinn í netið. Staðan orðin 4-2 í Víkinni og Fylkismenn ekki upplitsdjarfir.

Karl Friðleifur Gunnarsson kórónaði frábæran leik sinn með laglegu marki fyrir utan vítateig á 79. mínútu. Hann fékk boltann frá Ara Sigurpálssyni og lét vaða af löngu færi. Karl smellhitti boltann og söng hann í netinu.

Þar við stóð og Víkingur sigraði örugglega í sjö marka leik.

Atvik leiksins

Jöfnunarmark Víkinga í upphafi leiks var umdeilt þar sem Aron Elís Þrándarson virtist fá boltann í höndina áður en hann lagði boltann í netið. Gestirnir voru allt annað en sáttir með að markið fékk að standa.

Stjörnur og skúrkar

Karl Friðleifur Gunnarsson átti frábæran leik í Víkinni, lagði upp tvö mörk og rak smiðshöggið á sigurinn með laglegu marki fyrir utan vítateig. Ari Sigurpálsson var mjög sprækur í sóknarleik Víkinga og var einn af fimm markaskorurum Víkinga í kvöld.

Varnarleikur beggja liða var ekki upp á marga fiska og var Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, allt annað en sáttur með frammistöðuna í fyrri hálfleik. Víkingar sundurspiluðu varnarlínu Fylkis í síðari hálfleik og áttu varnarmenn Fylkis erfitt uppdráttar í leiknum í kvöld.

Dómarar

Þórður Þorsteinn Þórðarson missti af stóru augnabliki á 14. mínútu þegar Aron Elís Þrándarson virtist fá boltann í höndina í aðdraganda marksins. Markið hefði að öllum líkindum ekki átt að standa enda voru gestirnir úr Árbæ allt annað en sáttir með ákvörðun dómaranna.

Stemning og umgjörð

Það var hvöss og köld vestanátt í Víkinni og voru það 635 hugrakkar sálir sem sátu í stúkunni í 90 mínútur. Þeim var launað með markasúpu en stemningin hefur þó verið meiri í Víkinni, þó skiljanlegt í ljósi haustlegra aðstæðna.

Viðtöl

Karl Friðleifur: „Við eigum nóg inni“

Bakvörðurinn Karl Friðleifur Gunnarsson var einn af fimm leikmönnum Víkinga sem komst á blað í leiknum og var glaður með stigin þrjú þó að frammistaðan hafi ekki verið upp á tíu.

„Ég er gríðarlega sáttur með þrjú stig en frammistaðan var kannski ekki alveg upp á marga fiska. Við eigum nóg inni þar en ég er sáttur með þrjú punkta eins og er,“ sagði Karl Friðleifur eftir leikinn.

„Það voru margir hlutir sem við töluðum um í hálfleik sem við þurftum að laga. Við þurftum að gera það í seinni hálfleik en þetta var ekki alveg nógu gott af okkar hálfu.“

Karl Friðleifur Gunnarsson.Vísir/Pawel

Karl Friðleifur skoraði gull af marki á 79. mínútu ásamt því að leggja upp tvö mörk. Hann var að vonum ánægður með sína frammistöðu í kvöld.

„Ég er mjög sáttur, alltaf sáttur þegar ég næ að hjálpa liðinu mínu. Vindurinn hjálpaði mér aðeins en ég smellhitti hann.“

Víkingar eru á toppi deildarinnar eftir að hafa spilað tíu leiki og er Karl Friðleifur ánægður með gang mála þó að það megi bæta eitt og annað í leik liðsins.

„Ég held að við getum ekki kvartað. Á toppnum með sex forskot, eins og er, þannig ég held að við getum ekki kvartað en það er margt sem er hægt að bæta. Við munum klárlega rýna í það í hléinu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira