Handbolti

Íslandsmeistarinn Aron er hvergi nærri hættur

Aron Guðmundsson skrifar
Aron Pálmarsson lyftir hér bikarnum eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með FH á dögunum í fyrsta sinn á hans ferli.
Aron Pálmarsson lyftir hér bikarnum eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með FH á dögunum í fyrsta sinn á hans ferli. Vísir/Pawel

Aron Pálmars­son varð á dögunum Ís­lands­meistari í hand­bolta með FH. Tak­mark sem hann stefndi að með upp­eldis­fé­laginu allt frá heim­komu fyrir tíma­bilið nú náð. En FH-ingurinn er ekki saddur. Hann ætlar sér fleiri titla hér á landi og segist ekki skilja um­ræðuna um mögu­leg enda­lok á hans ferli.

FH tryggði sér ís­lands­meistara­titilinn í hand­bolta með sigri á Aftur­eldingu í úr­slita­ein­vígi Olís deildarinnar. Er um að ræða fyrsta Ís­lands­meistara­titill liðsins í þrettán ár og er hann sá sau­tjándi í röðinni hjá Hafnar­fjarðar­fé­laginu.

Þá er þetta fyrsti Ís­lands­meistara­titill liðsins eftir heim­komu FH-ingsins Arons Pálmars­sonar úr at­vinnu­mennsku.

„Allan daginn, sem og í leikunum sjálfum var maður bara í bullandi fókus. Maður hefur, í gegnum sinn feril, vanist þessum stóru leikjum. Maður reyndi því að stilla þetta af þannig að þetta væri nú bara einn hand­bolta­leikur. En svo komu fram til­finningar og auð­vitað mikil gleði eftir leik,“ segir Aron að­spurður hvernig það sé að vera orðinn Ís­lands­meistari og það í fyrsta skipti á hans ferli.

Á sínum ferli, sem spannar meðal annars mörg ár í at­vinnu­mennsku, hefur Aron unnið allt sem hægt er að vinna með fé­lags­liðum sínum. Marg­faldur lands- og bikar­meistari þarna á ferð og þá hefur hann einnig hampað mikil­feng­legasta bikarnum af öllum, Evrópu­meistara­titli fé­lags­liða með sigri í Meistara­deild Evrópu.

Tímabil sem tók mikið á

Hann átti þó alltaf eftir að verða Ís­lands­meistari. En það er ekki staðan lengur og er Aron enn að melta þann sigur.

Aron í leiknum gegn Aftureldingu á dögunum. Leiknum þar sem að FH tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.Vísir/Pawel

„Maður fann fyrir miklum létti strax eftir leik og með kvöldinu. En núna, þegar að maður kemur aftur í Kapla­krika eftir þetta og hittir fólk, þá finnur maður hvað þetta skiptir miklu máli. Þetta hafa verið yndis­legir tímar sem hafa liðið frá leiknum þar sem að við tryggðum titilinn. Maður er að melta þetta. Að þetta tak­mark hafi náðst. Auð­vitað settum við markið hátt. Ætluðum okkur þetta í byrjun tíma­bils. Stefnan að sækja þann stóra.

Þetta tíma­bil tók mikið á. Bæði fyrir liðið sem og mig per­sónu­lega, því þessu fylgdu margar nýjar á­skoranir, að koma aftur heim, og er allt öðru­vísi dæmi en ég er vanur. Ég er bara hrika­lega stoltur af liðinu. Þá er ég þokka­lega stoltur af sjálfum mér líka. Að hafa klárað þetta.“

Sérstakur titill

Þrátt fyrir alla stóru titlana á sínum ferli viður­kennir Aron að til­finningin sem fylgir því að hampa sjálfum Ís­lands­meistara­titlinum sé að ein­hverju leiti sér­stök.

Fögnuðurinn í leikslok var mikill. Bið FH-inga eftir næsta Íslandsmeistaratitli lokið.Vísir/Pawel

„Já þetta var mjög sér­stakt tíma­bil fyrir mig. Stefnan mín, þannig séð, var ekkert að spila aftur á Ís­landi. Maður er að koma inn í allt öðru­vísi pakka en maður hefur vanist síðustu tíu til fjór­tán árin. Þetta var mikil á­skorun. Auð­vitað gerði ég mér alveg grein fyrir því. En ég verð að gefa fé­laginu allt mitt hrós. Hvernig þeir í raun tóku á móti mér. 

Auð­vitað voru þeir á­nægðir með að fá mig og allt það en hvernig komið var fram við mig í allan vetur. Mér var bara tekið frekar vel og mér leið mjög vel. Það var það sem skipti mestu máli fyrir sjálfan mig. Þetta er sér­stakur á­fangi. Ég á eftir að melta þetta að­eins. En þetta er al­gjör­lega frá­brugðið öðrum titlum og tíma­bilum.“

„Eins og maður eldist um tíu ár við það eitt að koma heim“

Draumar Arons fyrir tímann hjá FH eru stærri en það að verða bara Ís­lands­meistari með upp­eldis­fé­laginu. Leik­maðurinn sem hefur unnið stóra sigra fyrir lands- og fé­lags­lið, vill meira.

„Við náðum í tvo titla af þremur á þessu tíma­bili. Gerum bara betur næst. Við vorum svekktir yfir því að komast ekki í úr­slita­helgina í bikarnum og berjast þar um bikar­meistara­titilinn. Það er eitt­hvað sem ég á eftir. Það er auð­vitað stefnan. Að gera betur en síðast. Ég er bara spenntur fyrir fram­haldinu. Er núna búinn að að­lagast. Veit um hvað þetta snýst. Ég mæti bara enn þá betri inn í næsta tíma­bil.“

Þannig að þú ert hvergi nærri hættur?

„Nei ég skil ekki alveg þetta tal um það. Það er eins og maður eldist um tíu ár við það eitt að koma heim til Ís­lands miðað við um­ræðuna. Nei. Ég sé ekki fyrir mér ein­hver enda­lok á næstunni.

Stefnan hjá FH er alltaf að berjast um titla þó það hafi kannski ekki gengið sem skildi síðustu ár. Við viljum alltaf vera að berjast við toppinn. Ég fer inn í hvert einasta tíma­bil, sér­stak­lega með þessu fé­lagi, til þess að ná í alla titla sem í boði eru. Svo lengi sem ég verð hérna þá er það mitt mark­mið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×