Innlent

Bjarni fundar með Selenskí í Stokk­hólmi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Bjarni Benediktsson er nú staddur í Stokkhólmi þar sem hann fundar með skandinavískum kollegum sínum og Úkraínuforseta.
Bjarni Benediktsson er nú staddur í Stokkhólmi þar sem hann fundar með skandinavískum kollegum sínum og Úkraínuforseta. Vísir/Ívar Fannar

Forsætisráðherrar Norðurlandanna koma saman í Stokkhólmi í dag til þess að funda með Volódómír Selenskí Úkraínuforseta.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að gestgjafinn sé Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía en aðrir þátttakendur eru Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, Alexander Stubb, forseti Finnlands, Jonas Gahr Störe forsætisráðherra Noregs og Metta Frederiksen forsætisráðherra Dana.

Á fundinum á að ræða stuðning Norðurlandanna við Úkraínu og stöðuna á friðaráætlun Úkraínu. „Um er að ræða þriðja leiðtogafund Norðurlandanna með forseta Úkraínu en fyrri fundir voru haldnir í Helsinki í maí á síðasta ári og í Osló í desember sl,“ segir ennfremur. 

Að loknum leiðtogafundinum mun Bjarni eiga tvíhliðafund með Selenskí.

Úkraínuforseti segir á samfélagsmiðlinum X að aðaláhersla verði lögð á að tryggja Úkraínumönnum betri loftvarnakerfi, vopn fyrir hermennina á víglínunni og að samstarf á sviði vopnaframleiðslu verði eflt.

Að loknum fundum með leiðtogunum mun Selenskí svo hitta Karl Svíakonung og áhrifamenn úr sænska hergagnaiðnaðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×