Skoðun

Inngönguspáin

Eygló Halldórsdóttir skrifar

Þá er komið að því, kjördagur forsetakosninga er á morgun og því hárréttur tími til að birta inngönguspána.

Aðeins um forsendurnar:

Spáin er unnin með 3 einstaklingum sem fengu 8,5, 9,5 og 10 á samræmdum prófum í stærðfræði þannig að tölfræðilega er hún nánast örugg, þó höfundur hafi bara náð 7 á landsprófi, löngu fyrir tíma einkunnabólgu og réttindasáttmála barna. Við erum hér að prufukeyra splunkunýtt spálíkan sem byggir á öllum öðrum smálíkönum og smáforritum („óhöppum“) sem smíðuð hafa verið án gervigreindar.

Það er því orðið ljóst hvernig krossinn á kjörseðlinum verður saman settur.

Okkar þrasgjarna þjóð hefur fundið réttu leiðina!

Spáin:

Mjög margt svokallað hægra fólk („valdaelítan sem á og ræður“) mun kjósa fyrrum formann þess stjórnmálaafls sem liggur lengst til vinstri á stjórnmálaásnum. Þar er komið strikið í krossinn sem hallar frá hægri til vinstri.

Hins vegar ætlar fólkið á vinstri vængnum („undirmálsaumingjar sem lesa bækur og öfunda þá sem eiga peninga“) að kjósa forstjóra alþjóðlegs einkafyrirtækis sem var stofnað til að siðbæta hin fyrirtækin í einkageiranum. Seinna strikið í atkvæðiskrossinum hallar því frá vinstri til hægri.

Úrvinnslan:

Svo er bara lokaverkefnið að kvöldi kjördags að finna út hvort strikin 2 verða jafnlöng (eða fari út fyrir kassann) og þá hvort hlutkesti eigi að ráða úrslitum eða vítakeppni á Bessastaðatúni.

Þar hafið þið það, fullkomið og rammíslenskt jafnvægi í inngönguspánni þvert á pólitískar línur!

Smáa letrið:

Það eina sem gæti kollvarpað þessari spá er að Vigdís, Ólafur Ragnar og Guðni Th. stígi fram nú á næstefsta degi og afhjúpi hvern þau ætla að kjósa.

Höfundur er í kosningaham.




Skoðun

Sjá meira


×