Enski boltinn

Breyta deildabikarnum til að létta á leikjaálagi bestu liðanna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Liverpool er ríkjandi deildabikarmeistari. Undanfarin ár hefur fráfarandi þjálfari þeirra Jurgen Klopp kvartað undan leikjaálagi tengt bikarnum.
Liverpool er ríkjandi deildabikarmeistari. Undanfarin ár hefur fráfarandi þjálfari þeirra Jurgen Klopp kvartað undan leikjaálagi tengt bikarnum. getty/Robbie Jay Barratt

Töluverðar breytingar verða gerðar á enska deildabikarnum á næsta tímabili til að reyna að létta á leikjaálagi bestu liðanna.

Telegraph greinir frá því að vegna breytinga á fyrirkomulagi Meistara-, Evrópu- og Sambandsdeildarinnar, sem felur í sér fjölgun leikja frá sex í átta í undankeppninni á næsta tímabili ákvað enski deildabikarinn, einnig þekkur sem Carabao Cup, að bregðast við.

Deildabikarinn hefur oft mætt afgangi og unnið sér orðspor fyrir að skipta ekki máli eða telja ekki sem raunverulegur titill. Reynt hefur verið að bæta úr því síðustu ár, til dæmis með því að leggja niður framlengingu og fara beint í vítaspyrnukeppni.

Á næsta tímabili verður bikarinn áfram opinn öllum 92 liðum í efstu fjórum deildum Englands. Félög í ensku úrvalsdeildinni koma inn í 64-liða úrslitum, nema þau sem taka þátt í Evrópukeppnum og koma beint inn í 32-liða úrslitin.

Breytingin verður sú að þau félög sem taka þátt í Evrópukeppnum munu ekki mæta hvoru öðru í 32-liða eða 16-liða úrslitum.

Þá verður umferðunum einnig dreift yfir tveggja vikna tímabil, frekar en að heil umferð fari fram á einni viku eins og venjan hefur verið.

Þetta ætti að auka sigurlíkur liða í Evrópukeppnum töluvert, lengri tími til endurheimtar og undirbúnings auk þess sem andstæðingar þeirra verða ekki úr fremsta flokki fyrst um sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×