Körfubolti

Sjáðu stikluna fyrir nýju heimildaþættina um Grinda­vík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkurliðsins, þakkar fyrir stuðninginn í oddaleiknum í gær.
Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkurliðsins, þakkar fyrir stuðninginn í oddaleiknum í gær. Vísir/Anton Brink

Stöð 2 Sport er að vinna sex þátta heimildaþáttaseríu um körfuboltann í Grindavík og áhrifin sem jarðhræringarnar á Reykjanesi höfðu á starf körfuknattleiksdeildarinnar og leikmenn liðsins.

Garðar Örn Arnarson gerir þættina ásamt Sigurði Má Davíðssyni. Garðar er margverðlaunaður fyrir þætti sína en hann gerði meðal annars þætti um Víking og um Jón Arnór sem báðir fengu Edduna.

Sigurði Már hefur fylgt leikmönnum Grindavíkur vel eftir síðustu mánuði og fengið einstakt aðgengi að þeim bæði fyrr og eftir leiki og æfingar.

Egill Birgisson klippir þættina af sinni stakri snilld en hann er einn af mörgum Grindvíkingum sem hafa gengið í gegnum þessa erfiðu mánuði.

Garðar Örn Arnarson mætti í Körfuboltakvöldið í gær.Vísir/Anton Brink

Garðar Örn mætti í útsendingu Stöðvar 2 Sports frá oddaleik Vals og Grindavíkur og kynnti þessa þætti þeirra og það er óhætt að vera spenntir fyrir því þegar þeir verða frumsýndir í desember.

Garðar er faðir Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport og var að mætta í fyrsta sinn í þáttinn síðan að hann hætti sem framleiðandi þáttarins.

Þótt að Grindvíkingar hafi ekki náð að vinna Íslandsmeistaratitilinn hafa þessi síðustu mánuðir verið uppfyllir að dramatík, gleði og sorg. Það er í raun ótrúlegt að heimilislaust lið hafi komist alla leið í hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn og hafi allan tímann fengið magnaðan stuðning frá Grindvíkingum sem eru líka tvístraðir út um allt land.

Hér fyrir neðan má sjá stikluna sem hann frumsýndi í gær.

Klippa: Grindavík - Trailer



Fleiri fréttir

Sjá meira


×