Erlent

Svörtum vísað frá borði þegar kvartað var undan líkams­lykt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alvin Jackson, Emmanuel Jean Joseph and Xavier Veal var vísað frá borði þegar starfsmaður kvartaði undan líkamslykt frá ótilgreindum farþega.
Alvin Jackson, Emmanuel Jean Joseph and Xavier Veal var vísað frá borði þegar starfsmaður kvartaði undan líkamslykt frá ótilgreindum farþega. CBS

Þrír svartir karlmenn hafa höfðað mál á hendur American Airlines en þeir voru látnir ganga frá borði eftir að kvartað var undan líkamslykt í einni af vélum félagsins.

Mennirnir segja um að ræða mismunun á grundvelli kynþáttar.

Atvikið átti sér stað á flugvellinum í Phoenix í Bandaríkjunum en þá gaf áhafnarmeðlimur sig á tal við mennina og bað þá vinsamlegast að ganga frá borði.

Þess ber að geta að mennirnir þekktust ekki og voru ekki að ferðast saman.

Mennirnir áttuðu sig fljótlega á því að verið að var að vísa öllum svörtum karlmönnum úr vélinni en þeir voru átta talsins. Þegar úr vélinni var komið var þeim sagt að karlkyns flugþjónn hefði kvartað undan líkamslykt.

„Það er ekkert sem skýrir þetta annað en hörundslitur okkar,“ segir í yfirlýsingu karlanna þriggja; Alvin Jackson, Emmanuel Jean Joseph og Xavier Veal. Þeim hafi augljóslega verið mismunað á grundvelli kynþáttar.

Tilraun var gerð af hálfu starfsmanna American Airlines til að finna annað flug fyrir mennina en þegar það hafðist ekki var þeim leyft að ganga aftur um borð.

Í millitíðinni hafði flugmaðurinn tilkynnt það í gegnum hljóðkerfi vélarinnar að það væru tafir á brottför vegna „líkamslyktar“.

Mennirnir segjast hafa upplifað djúpstæða skömm, niðurlægingu og reiði, bæði þegar þeir gengu aftur um borð og tóku sér sæti meðal hvítra farþeganna sem störðu á þá og þegar þeir neyddust til að eiga í samskiptum við flugþjónin sem hafði kvartað.

Joseph segir ótrúlegt að atvik á borð við þetta séu enn að eiga sér stað árið 2024.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem American Airlines hefur verið sakað um kynþáttafordóma en mannréttindasamtökin NAACP gáfu út viðvörun árið 2017 þar sem svartir voru hvattir til þess að forðast að fljúga með félaginu.

Umfjöllun BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×