Enski boltinn

Sam­keppnin eykst hjá Hákoni um markmannstöðu Brentford

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Julian Eyestone þykir mikið efni og kemur til Brentford frá Duke háskólanum í Bandaríkjunum.
Julian Eyestone þykir mikið efni og kemur til Brentford frá Duke háskólanum í Bandaríkjunum. goduke.com

Brentford hefur gengið frá samningi við undir 19 ára landsliðs markvörð Bandaríkjanna, Julian Eyestone. Hann mun veita Hákoni Rafni Valdimarssyni samkeppni um stöðuna. 

Eyestone er alinn upp í Texas, í akademíu FC Dallas þar sem hann spilaði fyrir varaliðið frá 16 ára aldri áður en hann fór í Duke háskólann síðasta haust. Hann spilaði 18 leiki á tímabilinu með Duke og Brentford mun greiða háskólanum bætur, þó félagaskiptin séu formlega frágengin ókeypis.

Markmaðurinn er 201 sentimetri á hæð og þykir einn sá efnilegasti í Bandaríkjunum, hann mun fara í æfingabúðir u19 ára landsliðsins í lok júní og taka þátt í CONCACAF u20 móti í Mexíkó frá 18. júlí til 4. ágúst áður en hann kemur til æfinga hjá Brentford. 

Þetta ætti að auka samkeppnina um markvarðastöðu Brentford en Mark Flekken er núverandi aðalmarkvörður. 

Hákon Rafn var fenginn til félagsins í janúar á þessu ári sem þriðji markvörður og hefur spilað með varaliði félagsins, en fékk að verma varamannabekkinn í síðustu fjórum umferðum tímabilsins vegna meiðsla varamarkmannsins Thomas Strakosha.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×