Körfubolti

Iðk­endur með for­gang: „Förum ekki að breyta því núna“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Yngri iðkendur í körfuboltanum í Val fá forganga á leik kvöldsins eins og aðra.
Yngri iðkendur í körfuboltanum í Val fá forganga á leik kvöldsins eins og aðra. Vísir/Hulda Margrét

Ungir iðkendur í Val fá frítt á leik liðsins í kvöld og fengu forgang í sæti, líkt og á öðrum leikjum. Valur mætir Grindavík í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn að Hlíðarenda klukkan 19:15.

„Við höfum gert það alltaf, á alla leiki, að yngri iðkendum í Val er boðið á þessa leiki. Þar er svo sem ekkert nýtt í kvöld og í staðinn fyrir að hætta því núna verður það gert. Þau fá hluta af þessum Valsmiðum sem eru í boði,“ segir Svali Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vals í samtali við Vísi.

„Það fylgir því að vera iðkandi í yngri flokkum í Val að þú færð miða á leiki. Við gerum ekki greinarmun á leikjum þar. Ég lít á það sem hluta af hlutverki Vals og körfuboltans að gefa þessum yngri iðkendum tækifæri til að upplifa þennan atburð sem þessi leikur er, sem og síðasta oddaleik og þarsíðasta. Við förum ekki að breyta því núna,“ segir Svali.

Þá verður karlalið Vals í handbolta sérstakir heiðursgestir á leik kvöldsins eftir sigur liðsins á Olympiakos í Evrópuúrslitum um helgina.

Gríðarmargar hendur þarf til verksins og fjölmargir sjálfboðaliðar sem leggja hönd á plóg kringum eins stóran viðburð og þennan.

En hvernig verður dagurinn hjá Svala?

„Ég er bara í reglubundinni vinnu og reyni að sinna henni eins mikilli kostgæfni og hægt er. Það eru blessunarlega mjög margir aðrir að sjá um þennan leik. Ég nýt þeirra forrréttinda að fylgjast með fyrir utan og kem svo á Hlíðarenda að hjálpa til við undirbúning. Svo verð ég þarna í einhverri taugahrúgu þar til leik lýkur, segir Svali og hlær.

Leikur Vals og Grindavíkur hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Bein útsending hefst klukkustund fyrir leik, klukkan 18:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×