Körfubolti

Grind­víkingar gætu tapað fjórða odda­leiknum um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það reynir á Grindavíkurliðið á Hlíðarenda í kvöld að reyna að breyta slöku gengi félagsins í oddaleikjum um titilinn.
Það reynir á Grindavíkurliðið á Hlíðarenda í kvöld að reyna að breyta slöku gengi félagsins í oddaleikjum um titilinn. Vísir/Anton Brink

Grindvíkingum hefur ekki gengið allt of vel að landa sigri í oddaleik um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta en þeir fá tækifæri til að breyta því á Hlíðarenda í kvöld.

Grindvíkingar hafa beðið í ellefu ár eftir Íslandsmeistaratitlinum. Þegar þeir unnu hann síðast þá unnu þeir hann í oddaleik. Það er aftur á móti eini oddaleikurinn sem Grindvíkingar hafa unnið þegar spilað hefur verið upp á Íslandsmeistaratitilinn.

Þrisvar sinnum hafa Grindvíkingar þurft að sætta sig við tap í oddaleik um titilinn þar af tvisvar sinnum með aðeins einu stigi.

Grindavík tapaði fyrsta oddaleiknum sínum 67-68 á heimavelli á móti Njarðvík árið 1994.

Þeir töpuðu líka með einu stigi í oddaleik á móti KR í DHL-höllinni árið 2009, þá 84-83.

Langþráður sigur vannst á heimavelli á móti Stjörnunni vorið 2013 en Stjarnan komst 2-1 yfir í því einvígi. Grindavík vann tvo síðustu leikina og tryggði sér titilinn. Oddaleikinn vann liðið 79-74 á heimavelli sínum í Grindavík þar sem bandaríski leikmaður Stjörnunnar meiddist í upphafi leiks.

Grindvíkingar fóru síðan ekki vel út úr síðasta oddaleik sínum sem var á móti KR í Vesturbænum vorið 2017. KR-ingar unnu þann leik 95-56 og meðal leikmanna liðsins var Kristófer Acox sem er fyrirliði Valsliðsins í dag.

Valsmenn eru að fara í oddaleik um titilinn þriðja árið í röð, þeir unnu Tindastól með þrettán stigum 2022, 73-60, en töpuðu með einu stigi á móti Stólunum í fyrra, 81-82.

Valsmenn höfðu einu sinni áður komist í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn en það var þegar þeir töpuðu 77-68 á móti Keflavík í Keflavík vorið 1992.

  • Flestir sigrar í oddaleikjum um titilinn:
  • Njarðvík 3
  • Keflavík 3
  • KR 3
  • Haukar 1
  • Valur 1
  • Grindavík 1
  • Snæfell 1
  • Tindastóll 1
  • -
  • Flest töp í oddaleikjum um titilinn
  • Grindavík 3
  • Valur 2
  • Njarðvík 2
  • Keflavík 2
  • Haukar 1
  • KR 1
  • Stjarnan 1
  • ÍR 1
  • Tindastóll 1
  • -
  • Besta sigurhlutfall í oddaleikjum um titilinn
  • Snæfell 100& (1-0)
  • KR 75% (3-1)
  • Njarðvík 60% (3-2)
  • Keflavík 60% (3-2)
  • Haukar 50% (1-1)
  • Tindastóll 50% (1-1)
  • Valur 33% (1-2)
  • Grndavík 25% (1-3)
  • Stjarnan 0% (0-1)
  • ÍR 0% (0-1)

Tengdar fréttir

Leikmenn handboltaliðsins heiðursgestir í kvöld

Leikmenn handboltaliðs Vals verða heiðursgestir á oddaleik Vals við Grindavík um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta að Hlíðarenda í kvöld. Þetta staðfestir formaður körfuknattleiksdeildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×