Erlent

Gefa Úkraínumönnum eftirlitsflugvélar

Samúel Karl Ólason skrifar
Varnarmálaráðherra Svíþjóðar birti þessa mynd af eftirlitsflugvél en Svíar eru að gefa Úkraínumönnum tvær slíkar.
Varnarmálaráðherra Svíþjóðar birti þessa mynd af eftirlitsflugvél en Svíar eru að gefa Úkraínumönnum tvær slíkar.

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur ákveðið að senda umfangsmikinn hergagnapakka til til Úkraínu. Í honum eru fjölmargir bryndrekar, skriðdrekar, Starlink-kerfi, skotfæri fyrir stórskotalið og loftvarnarkerfi og tvær eftirlitsflugvélar, sem veita eiga Úkraínumönnum mun betri getu til að fylgjast með háloftunum yfir víglínunni, svo eitthvað sé nefnt.

Þá ætla Svíar að aðstoða Úkraínumenn við að betrumbæta þeirra eigin hergagnaþróun.

Þetta er stærsta hergagnasending Svíþjóðar til Úkraínu hingað til.

Verðmæti hennar er, samkvæmt varnarmálaráðuneyti Svíþjóðar, um 13,3 milljarðar sænskra króna, sem samsvarar rúmum 170 milljörðum króna.

Ráðamenn í Svíþjóð hafa einnig ítrekað að ekki stendur til að senda Úkraínumönnum JAS 39 Gripen herþotur, að svo stöddu. Úkraínumenn hafa lengi beðið Svía um slíkar þotur en þær eru hannaðar og framleiddar í Svíþjóð og alfarið með átök við Rússa í huga.

Jonson sagði að enn kæmi til greina að senda Úkraínumönnum þotur seinna meir en nú væri einblínt á F-16 þoturnar.

Gripen herþotu flogið í Svíþjóð.AP/Anders Wiklund

Eftirlitsflugvélarnar sem Svíar ætla að senda til Úkraínu kallast ASC 890 og eru þær einnig framleiddar í Svíþjóð. Þær eru búnar ratsjám og öðrum eftirlitsbúnaði og er þeim ætlað að styrkja loftvarnir Úkraínumanna til muna.

Hægt er að nota þær í samfloti með F-16 orrustuþotum en yfirvöld í Belgíu tilkynntu í gær að þaðan yrðu þrjátíu F-16 orrustuþotur sendar til Úkraínu og eiga þær fyrstu að berast þangað á þessu ári. Danir og Hollendingar hafa einnig heitið því að senda Úkraínumönnum slíkar herþotur sem gætu borist í sumar.

Einnig var tilkynnt í morgun að Svíar ætluðu að senda alla sína bryndreka af gerðinni Pbv 302 til Úkraínu. Það er eldri bryndrekar sem fyrst voru teknir í notkun í Svíþjóð árið 1966. 

Þessa bryndreka á að senda til nýrra herdeilda sem Úkraínumenn eru að mynda. Bryndrekar eru gífurlega mikilvægir í Úkraínu vegna mikillar notkunar stórskotaliðsvopna á víglínunni. Þeir eru meðal annars nauðsynlegir við að flytja menn í og úr orrustu og sækja særða hermenn.


Tengdar fréttir

Pólverjar víggirða landamærin í austri

Ráðamenn í Póllandi tilkynntu í gær ætlanir um umfangsmikla varnarvirkjagerð á landamærum Póllands við Rússland og Belarús. Einnig stendur til að auka fjárfestingar í stafrænum vörnum, drónaeftirliti og annarskonar varnarmálum.

Segja Frakka ætla að senda hermenn til Úkraínu

Ráðamenn í Frakklandi ætla að senda hermenn til Úkraínu. Þetta sagði yfirmaður herafla Úkraínu í dag og eiga frönsku hermennirnir að aðstoða við að þjálfa úkraínska hermenn. Líklega verða þeir staðsettir í vesturhluta landsins, fjarri víglínunni.

Tólf látin og tugir særð eftir árás á bygginga­vöru­verslun

Í það minnsta tólf eru látin eftir loftárás Rússa á byggingavöruverslun í Karkív í gær. Tugir eru auk þess særðir. Saksóknari í Úkraínu sagði í morgun að fjöldi látinna myndi líklega hækka en tvær árásir voru gerðar á borgina í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×