Körfubolti

Úlfarnir foruðust sópinn og Kyrie mis­tókst í fyrsta sinn að klára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Edwards skorar eina af körfum sínum með tilþrifum en leikmenn Dallas Mavericks ná ekki að stoppa hann þrátt fyrir góða tilraun.
Anthony Edwards skorar eina af körfum sínum með tilþrifum en leikmenn Dallas Mavericks ná ekki að stoppa hann þrátt fyrir góða tilraun. AP/Julio Cortez

Minnesota Timberwolves er á lífi í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta eftir sigur á Dallas Mavericks í úrslitum Vesturdeildarinnar í nótt.

Dallas menn voru með sópinn á lofti gátu tryggt sér sæti í lokaúrslitunum á móti Boston Celtics. Nú þurfa þeir að fara aftur til Minnesota fyrir leik fimm á fimmtudaginn.

Minnesota vann leikinn 105-100 og munaði þar miklu um mun betri leik hjá Karl-Anthony Towns en í fyrri leikjum einvígisins.

Towns skoraði 20 af 25 stigum sínum í seinni hálfleik. Hann hitti aðeins úr tuttugu prósent skota sinna í fyrstu þremur leikjunum en nýtti 9 af 13 skotum sínum í nótt þar af 4 af 4 fyrir utan þriggja stiga línuna.

„Ég hugsaði bara um að mæta agressífur til leiks. Þetta var ekki tími til að efast um sjálfan sig. Leikur fjögur, 3-0 undir. Burtu með allar efasemdir,“ sagði Towns.

Anthony Edwards var líka mjög góður og aðeins einni stoðsendingu frá þrennunni með 29 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar.

Luka Doncic var vissulega með þrennu, 28 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar en hvorki hann né Kyrie Irving hittu vel. Saman settu þeir aðeins 13 af 39 skotum sínum í körfuna.

Irving klúðraði líka fullkomnu sigurhlutfalli sínu við þessar aðstæður. Hann hafði fyrir leikinn unnið alla fjórtán leikina þar sem hann gat tryggt sér sigur í einvígi. Nú er hann 14-1.

„Þessi leikur skrifast á mig. Ég kom ekki með nógu mikla orku. Þeir náðu að vinna einn leik. Nú þurfum við bara að einbeita okkur að þeim næsta,“ sagði Doncic sem hitti aðeins úr 7 af 21 skoti í leiknum en náði sinni sjöttu þrennu í þessari úrslitakeppni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×