Skoðun

Að kjósa með hjartanu!

Ásdís Guðmundsdóttir skrifar

Framundan er spennandi barátta tólf flottra frambjóðenda til forsetaembættis.

Valið er hugsanlega erfitt fyrir marga, því að hlaðborðið er glæsilegt og fjölbreytt og ljóst að kosningarnar á laugardaginn verða æsispennandi.

Þegar frambjóðendur komu út úr frambjóðendaskápnum ákvað ég að gefa þeim öllum sjens, tja, svona flestum allavega. Ég hef nefnilega trú á því að við eigum að hlusta á hvað allir hafa fram að færa án þess að dæma fyrirfram og nýta þannig kosningaréttinn vel, því hann er dýrmætur.

Eftir að hafa velt fyrir mér kostum þessa fólks og fylgst með umræðum, er ákvörðunin skýr í mínum huga.

Halla Tómasdóttir hefur allt það að bera sem ég sé sem kosti forseta. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífi, bæði innanlands og erlendis, hefur reynslu úr háskóla- og nýsköpunarumhverfinu, hún er drífandi, hugrökk, hugmyndarík og framkvæmdasöm. Hún er óhrædd við að svara erfiðum spurningum og gerir það með rökum, rósemd og án æsings og hún kemur einkar vel fyrir.

Því er valið í mínum huga skýrt, ég finn að Halla talar beint inn í hjarta mitt, ég treysti henni best til að leiða okkur áfram með sínum áttavita.

Atkvæði mitt hefur þegar dottið ofan í kjörkassann i Holtagörðum og bíður spennt eftir talningu.

Nýtum kosningaréttinn og fögnum lýðræðinu!

Höfundur er verkefnastjóri.




Skoðun

Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Sjá meira


×