Erlent

Yfir fimm­tíu stig í hita­bylgju í Pakistan

Kjartan Kjartansson skrifar
Börn með maga- og garnabólgu af völdum hita fá meðferð á sjúkrahúsi í Hyderabad í Pakistan í hitabylgjunni sem hefur geisað þar síðasta mánuðinn. Hundruð manna hafa fengið hitaslag í mollunni þar.
Börn með maga- og garnabólgu af völdum hita fá meðferð á sjúkrahúsi í Hyderabad í Pakistan í hitabylgjunni sem hefur geisað þar síðasta mánuðinn. Hundruð manna hafa fengið hitaslag í mollunni þar. AP/Pervez Masih

Hitamælar sýndu yfir 52 gráður í sunnanverðu Pakistan í gær. Sérfræðingar segja að hitabylgja sem hefur gengið yfir Asíu síðasta mánuðinn sé bein afleiðing hnattrænnar hlýnunar af völdum manna.

Hæsti hitinn í bylgjunni til þessa mældist í Mohenjo Daro í Sindh-héraði í gær, 52,2 gráður, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Það dugði þó ekki til að fella hitametið þar, 53,5 gráður. Landshitametið í Pakistan var sett árið 2017 en þá mældust 54 gráður í borginni Turbat í suðvesturhluta landsins. Það er næsthæsti hiti sem hefur mælst í Asíu og fjórði hæsti hiti á jörðinni.

Veðurfræðingar gera ráð fyrir að hitabylgjan gangi niður í Mohenjo Daro og nærliggjandi svæðum en önnur er væntanlega annars staðar í héraðinu, þar á meðal í höfuðborginni Karachi, fjölmennstu borg landsins.

Íbúar í Mohenjo Daro eru vanir miklum sumarhitum og mildum vetrum en það hefur fram að þessu ekki stöðvað blómstrandi viðskipti á markaðstorgi bæjarins. Í hitabylgjunni nú hefur viðskiptavinum þar hins vegar snarfækkað.

„Viðskiptavinir koma ekki á veitingastaðinn vegna öfgahitans. Ég sit iðjulaus á veitingastaðnum við þessu borð og stóla án viðskiptavina,“ segir Wajid Ali, eigandi testaðar, við Reuters.

Læknir í bænum segir íbúana hafa aðlagast hitanum og að þeir kjósi að halda sig innandyra eða nærri vatni þegar hitabylgjur ganga yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×