Skoðun

Halla Tómas­dóttir og Sólskinsdrengurinn

Margrét Dagmar Ericsdóttir skrifar

Það eru svo margar ástæður fyrir því að ég kýs Höllu Tómasdóttur og við fjölskyldan öll. Ein sú helsta er einhverfi og fatlaði gullmolinn okkar, Þorkell Skúli Þorsteinsson, sem þjóðin kannski þekkir betur sem Sólskinsdrenginn.

Þegar við ákváðum að gera Sólskinsdrenginn, heimildarmynd um einhverfu, voru margir sem hlupu undir bagga og hjálpuðu til. Halla Tómasdóttir var ein af þeim, en hún var ein megin driffjöðrin í að hjálpa okkur að gera myndina að veruleika.

Þegar um jaðarhópa er að ræða og þá sérstaklega fatlaða, hefur fólk yfir höfuð ekki mikinn áhuga eða nennu að setja sig inn í hlutina. Sér í lagi ekki ef þú tengist manneskjunni ekki neitt eins og var í mínu tilfelli sem móður Kela og Höllu Tómasdóttir.

En það stoppaði ekki Höllu Tómasdóttur, því Halla T er allra. Hún er bara nákvæmlega eins og hún kemur til dyranna, brosandi, einlæg og góð og strax reiðubúin til að hjálpa. Þú þarft hugrekki, dug og kjark til að hjálpa þeim sem minna mega sín í samfélaginu og þar hefur Halla Tómasdóttir af nógu að taka. Hún er reiðubúin að hjálpa og leiðbeina fólki eins og mér, til að geta klárað þetta brýna samfélagsverkefni sem heimildarmyndin um einhverfu var og er.

Hún tók mér opnum örmum og peppaði mig áfram, en á þeim tíma höfðu ekki margir trú á þessu verkefni. Halla Tómasdóttir tengdi mig við réttu aðilana og að byggja rétta tengslanetið fyrir gerð myndarinnar. Það var undursamlegt og fallegt hversu mikinn áhuga hún hafði á mínum mikið fatlaða syni og hans vegferð. Viðmót hennar og hjálpsemi kom mér allavegana verulega á óvart og ekki eitthvað sem ég var vön.

Ef að Halla Tómasdóttir hefði ekki lagt þessu verkefni og vegferð lið þá er ég hrædd um að heimildarmyndin Sólskinsdrenginn, hefði aldrei verið gerð. Því vil ég þakka þér Halla Tómasdóttir fyrir að hafa þetta hugrekki, þennan kjark og einurð til að láta Sólskinsdrenginn verða að veruleika.

Takk fyrir okkur Halla Tómasdóttir. Að okkar mati hefur þú allt að bera til að verða frábær forseti Íslands.

Höfundur er móðir Sólskinsdrengsins og skrifar fyrir hönd fjölskyldu hans.




Skoðun

Sjá meira


×