Innlent

Myndi ekki syrgja brott­hvarf nef­tóbaksins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson er fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson er fjármálaráðherra. Vísir/Sigurjón

Fjármálaráðherra segir það gleðitíðindi að sala á íslensku neftóbaki dragist saman. Skoða þurfi hvort leggja eigi gjöld á nikótínpúða.

Í formála forstjóra ÁTVR í ársskýrslu verslunarinnar kemur fram að neftóbakssala haldi áfram að dragast saman og varar hann við að ef svo fer sem horfir sé það tímaspursmál hvenær framleiðslu þess verður hætt.

Neftóbakið á sér sterkar rætur í íslenskri menningu. Eldri kynslóðirnar taka það í nefið á meðan þær yngri troða því upp í efri vörina á sér. Það er þó að draga úr vinsældum þess og nikótínpúðarnir að koma sterkir inn enda töluvert ódýrari en íslenska baggið. Eins og forstjóri ÁTVR orðar það, nikótínpúðarnir eru að taka yfir markaðinn.

Klippa: Skoða þurfi hvort leggja eigi gjöld á nikótínpúða

ÁTVR er undir fjármálaráðuneytinu og segir ráðherra það gleðiefni að sala neftóbaks sé að dragast saman.

„Ég hef líka áhyggjur af því að þessi nikótínpúðanotkun hafi aukist svona stórkostlega. Ég hef verið að skoða það hvort það sé ekki eðlilegt að það sé skattlagt eða lögð einhver gjöld á þá á sama tíma og við erum sannarlega búin að hækka verulega gjöld á íslenska neftóbakið,“ segir Sigurður Ingi. 

Sigurður Ingi hefur í gegnum árin sjálfur tekið í nefið og vakti það mikla athygli árið 2021 þegar það sást til hans að fá sér í nefið í fréttum Ríkisútvarpsins.

Sigurður Ingi var gripinn glóðvolgur við að fá sér í nefið í fréttatíma RÚV árið 2021.RÚV

Þú persónulega, myndir þú syrgja neftóbakið?

„Nei, þetta er svona eilífðarbarátta að hætta því. Nú er ég til dæmis á tímabilinu þar sem ég er ekki að taka í nefið, þannig að ég gleðst nú yfir því,“ segir Sigurður Ingi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×