Sport

Snjór til vand­ræða í Ítalíuhjólreiðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjólreiðakappinn Alexandre Delettre á ferðinni í Ítalíuhjólreiðunum en nú er ekki aðeins snjór fyrir utan brautina.
Hjólreiðakappinn Alexandre Delettre á ferðinni í Ítalíuhjólreiðunum en nú er ekki aðeins snjór fyrir utan brautina. Getty/Tim de Waele

Það eru sérstakar aðstæður fyrir keppni dagsins í Ítalíuhjólreiðunum, Giro d'Italia. Þrátt fyrir að júní nálgist óðfluga þá eru sannkallaðar vetraraðstæður í fjöllunum á Ítalíu.

Giro d'Italia er eitt af risamótunum í hjólreiðaheiminum og það næstastærsta á eftir Frakklandshjólreiðunum, Tour de France.

Það gekk illa að skipuleggja sextándu sérleiðina vegna snjókomu. Hjólreiðakapparnir áttu að hjóla upp í 2500 metra hæð í Ölpunum en það var snjór og slydda í 1900 metra hæð.

Samband hjólreiðamanna vildi byrja frekar hinum megin við Umbrail skarðið til að forðast snjóinn en mótshaldarar voru harðir á því að byrja í Livigno og stytta ekki leiðina.

Það endaði þó með því að hjólreiðakapparnir voru ferjaðir hinum megin við fjallið og sextánda sérleiðin var látin byrja þar.

Norska ríkisútvarpið var í sambandi við hjólreiðamanninn Tobias Foss sem sagði skipulagið vera í molum. Hann sagði þó að sem betur fer voru hjólreiðakapparnir allir sammála því að færa keppnina.

„Það er slydda og það er snjór á jörðinni. Það er óskiljanlegt að þeir séu enn að velta því fyrir sér að stytta ekki leiðina,“ sagði Foss.

„Það hefði ekki verið möguleiki að hjóla í 2500 metra hæð. Það hefði verið allt of mikill snjór til að það væri möguleiki. Ég skil ekki alveg af hverju menn voru að leggja það til að reyna slíkt,“ sagði Foss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×