Skoðun

Sam­einingar­tákn á tímum sundrungar

Birna Gunnlaugsdóttir skrifar

Senn kýs íslenska þjóðin sér forseta og geysi margir gera upp hug sinn á síðustu stundu. Hiti er í þessum kosningum enda vill þjóðin sameiningartákn sem stendur vörð um hagsmuni þjóðar, hvar í sveit sem þeir eru settir. Stendur vörð um þjóðarverðmætin: náttúruauðlindir, sjálfstæði, friðsemd, mál og menningu. Ekki síst forseta sem er forseti allra þjóðfélagshópa.

Auk þessa þarf forseti að geta komið fram fyrir hönd þjóðar á erlendri grundu, hafa bein í nefinu á ögurstundum og helst hafa víðtæka þekkingu á alþjóðlegu umhverfi hvort heldur er pólitískt eða efnahagslega. Forseta sem kannn að koma fyrir sig orði, er einlægur og leggur jákvætt innlegg til þjóðmálanna.

Sjálf sé ég fyrir mér einstakling með hjartað á réttum stað, sem hefur skilning á ólíkri stöðu einstaklinganna s.s. eftir aldri, þjóðernislegum bakgrunni eða fjárhagsstöðu. Forseta sem veit að völd geti spillt og að rökhugsunin ein dugar sjaldnast til góðs. Forseta sem vill kynslóðaréttlæti og hafnar skammtímagróða fyrirtækja á kostnað umhverfis og framtíðarinnar. Orkumikinn leiðtoga sem leggur sig fram við að skilja tíðarandann hverju sinni og hefur í hyggju að leiða hina ýmsu þjóðfélagsþegna saman til umræðu. Forsetaefni sem býður til dæmis Íslendingum með erlendan bakgrunn til samræðna í kosningabaráttu. Forsetaefni með alþýðlegan bakgrunn og kann að þakka fyrir tækifæri lífs síns, sem hún hefur nýtt.

Nýtum kosningarétt okkar og sýnum lýðræðinu og okkur sjálfum þá virðingu að kynna okkur það sem forsetaframbjóðendurnir standa fyrir.

Ég vil jákvæðan, kraftmikinn, margreyndan, réttsýnan og uppbyggjandi forseta og kýs því Höllu Tómasdóttur til embættis forseta Íslands.

Höfundur er kennari og kjósandi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×