Erlent

Býst við aukinni sókn Rússa

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Volodímír Selenskí Úkraínuforseti í Slóvakíu á dögunum.
Volodímír Selenskí Úkraínuforseti í Slóvakíu á dögunum. AP

Forseti Úkraínu telur að Rússar gætu aukið enn við hernað sinn í norðausturhluta Úkraínu í kjölfar stórsóknar þeirra í nágrenni úkraínsku borgarinnar Kharkiv undanfarið. Tveir féllu í árás á borgina í gær og sex særðust í annarri árás í dag.

Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu viðurkennir að baráttuþrek úkraínskra hermanna sé víða á þrotum; þeir upplifi vonleysi og nokkrar herdeildir standi hreinlega alveg tómar. Þetta kom fram í máli hans í viðtali við frönsku fréttaveituna AFP í dag. Hann áréttaði þó í ávarpi í gær að ríkisstjórn hans legði enn allt kapp á að halda Rússum í skefjum, þrátt fyrir að hergögn væru af skornum skammti.

„Auðvitað vinnum við að því hörðum höndum að sjá Úkraínu fyrir meiri varnarúrræðum. Við vinnum stöðugt með bandamönnum okkar og við reynum að sannfæra þá um að styðja við okkur. Rússar munu aldrei komast upp með hryðjuverk sín. Smám saman tryggjum við að rússneska ríkið finni fyrir afleiðingum illmennsku sinnar,“ sagði Selenskí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×