Skoðun

Fjall­konan nýja, hún Katrín

Þorvaldur Logason skrifar

Eftir að hafa ráðið öllu á Íslandi í mörg ár, sagði Davíð Oddsson bless, eða svona næstum því, með því að gefa þjóðinni 30 þúsund eintök af sögu Stjórnarráðsins þar sem einn kaflinn var um hann sjálfan þegar hann var forsætisráðherra þótt hann væri ekki alveg búinn að kveðja, heldur bara næstum því. Kaflinn var skrifaður af ritstjóra Flokksins og fjallaði um það hvað Davíð væri líkur þjóðskáldinu Hannesi Hafstein og þeir báðir frábærir.

Augljóst er að Katrín hefur lesið sögu Davíðs, eða að minnsta kosti næstum því, og nú ætlar hún að leika enn betri leik en Davíð. Davíð var heldur lélegur seðlabankastjóri en Katrín ætlar að vera nokkuð góður forseti.

Við skulum vera dálítið pólitískt póetísk eins og þau og ímynda okkur að Katrín standi núna á tindi Esjunnar og horfir niður á spegil hafsins í bleiku sólsetri. Dagur gangur til viðar og í söknuði langar hana til lesa ljóð og gefa þjóðinni í 30 þúsund eintökum um fjallkonuna - um hana sjálfa - sameiningartákn þjóðarinnar en þá kemur Bjarni úr forsætisráðuneytinu og vill eiga formálann að þessari fegurð og brennir allar bækurnar. Skamm Bjarni. Þetta var ljótt, segir hún kannski. Ég gaf þér Stjórnarráðið en þú átt ekki 1. júní einn og ekki peninga þjóðarinnar og ert ekki einn um að eiga eldspýtur til að kveikja í menningarverðmætum.

Þá eru góð ráð dýr. Bjarni er búinn að stela glæpnum, í bókstaflegri merkingu. Gjöf Katrínar til þjóðarinnar, á kostnað þjóðarinnar, frá ljóðskáldum þjóðarinnar er nú allt í einu á vegum Bjarna. Og hvað verður þá um 1. júní, einmitt daginn sem ljóðabókin átti að koma út? Fjallkonudaginn nýja þegar Katrín og íslenska fjallkonan áttu að renna saman í eitt á menningarfjallinu á Bessastöðum sem fallega pökkuð gjöf til þjóðarinnar.

Kannski hann verði nú skiljanlegri vandinn við það að reyna að skálda sig úr forsætisráðuneytinu beint yfir á Bessastaði. Þá eru alls kyns gul og rauð ljós í veginum, jafnvel sum þeirra blikkandi.

Höfundur er heimspekingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×