Tíska og hönnun

„Blessunar­lega ekkert stoppaður af for­eldrum mínum“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Jón Breki er viðmælandi í Tískutali.
Jón Breki er viðmælandi í Tískutali. Aðsend

Tískuáhugamaðurinn og lífskúnstnerinn Jón Breki Jónas er óhræddur við að tjá sig í gegnum tískuna og fer sínar eigin leiðir í klæðaburði. Jón breki er alinn upp í Danmörku en hefur verið búsettur á Íslandi síðastliðin sjö ár. Hann lifir og hrærist í tískuheiminum en stefnir á markaðsfræði í danska háskólanum KEA og elskar að ferðast. Jón Breki er viðmælandi í Tískutali.

Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Tískuáhugamaðurinn Jón Breki er með einstakan stíl. Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Það sem mér finnst skemmtilegast við tísku er hvernig hún leyfir mér að tjá mig án orða. Ég elska spennuna við að blanda saman mismunandi stílum, litum og munstrum. Fötin leyfa mér að prófa mig áfram, fara út fyrir rammann og endurspegla hver ég er.

Jón Breki elskar að prófa sig áfram í tískunni og segir fötin endurspegla hver hann sé. Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Þegar ég las þessa spurningu fyrst datt mér svo margar flíkur í hug en ég held að mín uppáhalds sé og verði örugglega alltaf svarta síða kápan minn frá Day. 

Mér finnst svo ótrúlega skemmtilegt hvernig hægt er að vera í kápu og bæta skarti við frekar venjuleg föt og þannig bætt klæðnað dagsins um helling. Mér finnst mikilvægt að eiga yfirhafnir í öllum litum og gerðum í fataskápnum.

Ég er líka mikið fyrir aukahluti og get ekki ímyndað mér að fara úr húsi án þess að vera með Acne Studios hálsmenið mitt. Ég hef átt þetta hálsmen í frekar langan tíma og er það orðið partur af öllum outfittunum mínum.

Svarta Day kápan umrædda. Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að setja saman outfit fyrir öll tilefni. Fatavalið kemur yfirleitt bara af sjálfu sér. Auðvitað kemur fyrir að ég er þannig stemmdur að ég hringsóla fram og til baka í fataskápnum.

Einnig vinn ég í tískuvöruversluninni Galleri 17 og finnst fátt skemmtilegra en að aðstoða viðskiptavini og veita þeim innblástur. Því má segja að ég lifi og hrærist í tísku alla daga.

Jón Breki lifir og hrærist í tískunni.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Stíllinn minn er alls kyns og breytist eiginlega bara með skapinu og vindinum.

Ég á óteljandi jakka og pelsa sem ég elska að nota til að leggja áherslu á fötin sem ég er í. Flottur pels getur notið sín á margbreytilegan hátt. 

Það er hægt að nota pels við gallabuxur, sem ég geri oft, en svo gjörbreytist sami pels við glimmer buxur. Bæði flott en á ólíkan hátt.

Mér finnst það sama eiga við um leðurjakka í öllum litum, munstrum og stílum. Ein falleg flík getur stundum staðið bara ein og sér fyrir öllu dressinu.

Jón Breki elskar hvernig flíkurnar geta gjörbreyst eftir því við hvað hann klæðir þær. Aðsend

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Hver gerir það ekki! Fyrir mér er fátt skemmtilegra en að klæða sig með vinum fyrir geggjað tilefni. Það er svo ótrúlega gaman að finna eitthvað outfitt sem ég er stoltur af og sýna mig í því.

Mér finnst einnig rosalega skemmtilegt að klæða mig upp dagsdaglega. Til dæmis forðast ég að klæðast joggingbuxum því þær eru ekki minn stíll og fer frekar í hör eða jakkafatabuxur sem mér finnst jafn þægilegar en líta betur út á mér.

Jón Breki er lítið fyrir joggingbuxur en leitar í flíkur sem honum finnst þægilegar og láta honum líða vel. Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Ég fylgist stöðugt með tísku og finn innblástur héðan og þaðan. Það skemmtilega við tísku er hvernig hún breytist stöðugt og fólk er farið að þora að fara aðeins út fyrir boxið.

Ég ólst upp í Kaupmannahöfn og er frekar litaður af tískunni þaðan. Ég ferðast reglulega þangað til þess að heimsækja systur mína sem býr þar og við erum alltaf að skoða og finna flottar flíkur. 

Danir eru mjög framarlega í tísku og eru með virkilega flotta hönnuði, ég kaupi þess vegna mikið af fötum þar. Einnig er uppáhalds merkið mitt Samsøe Samsøe.

Jón Breki er hrifinn af danskri tísku. Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Ég hef alltaf verið mjög kjarkaður þegar kemur að klæðnaði en með auknum þroska þá verður maður líka aðeins hugaðri þegar kemur að fatavali.

Ég veit ekki hvort ég hefði endilega mætt í pels í 10. bekk í grunnskóla, en ég gat verið mjög skrautlegur í klæðnaði þegar ég tók mig til. 

Ég var blessunarlega ekkert stoppaður af foreldrum mínum og fékk bara að vera eins og mér leið best.

Með aldrinum hef ég lært að meta einfaldleikann sem fylgir vel samsettum fatnaði, en með þroskanum þá bý ég einnig til pláss fyrir ný áhugamál og innblástur. 

Að ferðast hefur einnig haft mikil áhrif á stíl minn. Að upplifa nýjar menningar og mismunandi tísku hefur opnað augun fyrir nýjum möguleikum og stílfræðilegum sviðum sem ég hefði kannski annars ekki leitað að. 

Þannig að þó ég sé enn með mikinn kjark í fatavali er ég núna opnari fyrir að prófa eitthvað nýtt og breyta stílnum eftir aðstæðum.

Jón Breki er óhræddur við að prófa nýja hluti í tískunni en guli liturinn er í uppáhaldi hjá honum um þessar mundir. Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Boð:

Að klæða sig eftir veðri er mikilvægt margra hluta vegna, sérstaklega þegar kemur að tísku. Að klæðast eftir veðri tryggir þægindi, það er óþægilegt ef maður er of illa eða of vel klæddur. Mér finnst orðatiltækið „feel cute, look cute“ eiga vel við og fer ég alltaf eftir því.

Einnig finnst mér það líka það sýna mikinn hæfileika hjá fólki sem á sæt föt út árið, sem passa í mismunandi veðrum.

Bönn:

Ég persónulega hef engin bönn þar sem tískan er alltaf að breytast og fara í hringi. 

Frekar finnst mér bara mestu „bönnin“ koma langskemmtilegast út.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Þegar ég hugsa um eftirminnilegustu flíkina mína hugsa ég strax um þegar ég var fimm ára og fór að kaupa nýja skó með mömmu minni fyrir veturinn. Ég, að sjálfsögðu eins skrautlegur og ég er, endaði í kúrekastígvélum sem var svo ómögulegt að fá mig til að fara úr. Ég myndi segja að ást mín á kúrekastígvélum hafi blómstrað síðan.

Kúrekastígvélin hafa alltaf átt hug og hjarta Jóns Breka. Aðsend

Annars er rauða vínyl settið mitt alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég elska að vera í björtum litum og ég er með þráhyggju yfir þessum rauða lit. Fataskápurinn fyrir sumarið er þó meira gulur í ár.

Vínyl settið er í miklu uppáhaldi. Aðsend

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Ég ætla að kvóta í Kenzo Takada: „Tískan er eins og að borða, þú ættir ekki alltaf að halda þig við sama matseðilinn.“


Tengdar fréttir

„Þegar manni líður vel í eigin skinni skín það í gegn“

Tískuskvísan Fanney Ingvarsdóttir starfar sem samfélagsmiðlasérfræðingur hjá Bioeffect og hefur gaman að tjáningarformi tískunnar. Á unglingsárunum var Stjörnugallinn einkennisbúningur Fanneyjar sem æfði handbolta og fótbolta af fullum krafti en eftirminnilegasta flíkin er líklega síðkjóll frá Ungfrú Ísland. Fanney er viðmælandi í Tískutali.

Fataherbergið seldi henni íbúðina strax

Ofurskvísan Anna Björk er nýútskrifuð úr meistaranámi í mannauðsstjórnun og elskar fjölbreytileika tískunnar. Hún er viðmælandi í Tískutali.

Strangheiðarleg dreifbýlistútta og lopapeysan í uppáhaldi

Lífskúnstnerinn Ingunn Ýr Angantýsdóttir hefur gaman að því hvað tískan getur verið óútreiknanleg. Hún er tveggja barna móðir búsett í Ólafsvík og lýsir sjálfri sér sem strangheiðarlegri dreifbýlistúttu á Snæfellsnesi. Ingunn Ýr er með einstakan og glæsilegan stíl en hún er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Frá naglalakki hjá ömmu í iðnaðarmann í skítugum fötum“

Stílistinn, hönnuðurinn og lífskúnstnerinn Alexander Freyr Sindrason hefur gríðarlegan áhuga á tísku og hefur meðal annars hannað fatnað á poppstjörnuna Patrik Atla eða PBT. Hann elskar hvernig tískan getur brotið upp á hversdagsleikann og gert lífið skemmtilegra en Alexander er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Það mikilvægasta er að vera trúr sjálfum sér“

Fegurðardrottningin Helena Hafþórsdóttir O’Connor er mikil áhugakona um tísku og nýtur þess í botn að klæða sig upp. Hún sækir tískuinnblásturinn meðal annars til mömmu sinnar og ömmu. Helena er viðmælandi í Tískutali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×