Innlent

Vilja að plássum í sumarfrístund sé út­deilt með sann­gjarnari hætti

Lovísa Arnardóttir skrifar
Valgerður segir að fyrsti kostur sé að fá meira fjármagn í kerfið þannig öll börn geti verið í frístund eins og þau þurfa á sumrin.
Valgerður segir að fyrsti kostur sé að fá meira fjármagn í kerfið þannig öll börn geti verið í frístund eins og þau þurfa á sumrin. Mynd/aðsend og Vísir/Vilhelm

Foreldra grunnskólabarna í Vesturbænum kalla nú eftir því að Reykjavíkurborg leggi meira fjármagn í frístund á sumrin svo fleiri komist að. Sé það ekki gert kalla þau eftir því að plássum í frístund sé úthlutað með sanngjarnari hætti en nú.

Til að fá pláss í frístund að sumri þarf að sitja fyrir framan tölvu tiltekin dag á tilteknum tíma og panta pláss. Sé það ekki gert er líklegt að foreldrar fái ekki pláss í frístund eða fái takmarkað pláss.

Hópur foreldra barna í Vesturbæ Reykjavíkur skrifaði grein um málið sem birt var á vef Vísis í vikunni. Undir greinina skrifa 24 foreldrar. Meðal þeirra er Valgerður Pálmadóttir. Hún segir í samtali við fréttastofu þau aðeins hafa fengið jákvæðar viðtökur við greininni frá öðrum foreldrum en hafi ekkert heyrt í fulltrúum borgarinnar.

„Fólk er almennt sammála okkur en hefur líka verið að benda okkur á aðrar hliðar málsins. Eins og að aðgengi fatlaðra að frístund með þessu fyrirkomulagi geti verið mjög takmarkað,“ segir Valgerður.

Sumarfrí grunnskólabarna er um tíu vikur. Sumarfrí vinnandi fólks er um fjórar til fimm en Valgerður segir marga foreldra oft búna að nýta hluta þess í páska- og sumarfrí. Það geti því verið margar vikurnar sem þurfi að fylla með einhvers konar námskeiði eða pössun fyrir barnið eða börnin að sumri.

Dýrt að missa af plássinu

Bent er á það í greininni að það geti verið afar dýrkeypt fyrir fjölskyldur að missa af plássi í frístund. Það sé forsenda þess að foreldrar komist til vinnu en auk þess séu almennt námskeið annars staðar töluvert dýrari. Vikan í frístund, frá 8.30 til 16.30, kosti um 15 þúsund en Valgerður segir að sem dæmi hafi hún greitt um 30 þúsund fyrir námskeið í Myndlistarskólanum sem aðeins var hálfan daginn.

„Um er að ræða mikið niðurgreidda þjónustu á vegum borgarinnar, sem kostuð er með útsvari sem við borgarbúar greiðum í sameiningu til samreksturs samfélagsins okkar,“ segir í grein foreldranna og að þetta kerfi bitni fyrst og fremst á börnunum sjálfum. Þau vilji vera í frístund með vinum sínum

Valgerður er með barn í öðrum bekk og segir að sem dæmi síðasta sumar hafi hún fengið mun færri vikur í frístund en þau hefðu óskað sér. Hún hafi svo heyrt af einhverjum sem fékk fjórar vikur en aðrir aðeins eina og átt bágt með að trúa því að ekkert skipulag væri að baki því hvernig plássunum hefði verið útdeilt.

„Ég hélt að ég væri að misskilja þetta. Það væri verið að fara yfir umsóknirnar með einhverjum sanngjarnari hætti. Svo spáði ég ekkert meir í þessu fyrr en við vorum að sækja um núna.“

Enn á biðlista

Nú hafi þau farið beint á biðlista og bíði enn eftir því að fá svar um það hvort sonur þeirra fá pláss í frístund og í hversu margar vikur. Alls eru sex í boði. Á meðan þau bíða þora þau ekki að bóka annað.

„Við erum komin með eina og hálfa viku en sóttum um fimm. Þetta getur orðið mjög mikið púsl. Við höfum ekki keypt önnur námskeið því við viljum bíða og sjá hvort við fáum svör frá borginni. Maður er auðvitað að taka áhættu með því en maður vill ekki skrá sig eða borga fyrir eitthvað þegar maður gæti átt kost á frístund. Þetta er mjög óþægileg staða og er mjög stressandi.“

Blöskrar fyrirkomulagið

Hún segist auk þess hafa heyrt af því að fyrirkomulagið sé ekki eins í öllum hverfum. Sums staðar sé eftirspurnin meiri en annars staðar.

„Þetta er niðurgreidd þjónusta og mjög ódýrt miðað við annað sem fólk er að kaupa. Mér blöskrar svo að það sé farið svona illa með opinbert fé. Þetta eru skattpeningarnir okkar allra og svo er þetta auk þess bara hrópandi óréttlæti. Að þeir sem sækja um fyrst fái allt og svo sértu jafnvel bara tuttugu mínútum of seinn og færð ekkert.

Valgerður segir fyrstu kröfu hópsins að borgin setji meiri peninga í þetta kerfi. Börnin og foreldrar þeirra séu almennt mjög ánægð í frístund og það væri best fyrir börnin að fá að vera þar að sumri eins og að vetri, þegar þörf er á.

„En á meðan það er ekki settur meiri peningur í þennan málaflokk finnst okkur allavega lágmarkskrafa að þessum takmörkuðu gæðum sé útdeilt á einhvern sanngjarnan hátt. Miðað við öll tölvuforritin sem eru til í dag ætti ekki að vera mikið mál að skapa eitthvað kerfi þar sem fólk getur sett í fyrsta, annað og þriðja val og hafi auk þess eitthvað aðeins meira ráðrúm til að skipuleggja þetta. Einhvern lengri glugga. Svo væri bara einhver sem færi yfir allar umsóknir og útdeildi á sanngjarnan hátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×