Erlent

Verður borgar­stjóri Lundúna þriðja kjör­tíma­bilið í röð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Khan hefur gegnt embætti borgarstjóra í Lundúnum frá árinu 2016.
Khan hefur gegnt embætti borgarstjóra í Lundúnum frá árinu 2016. AP

Sadiq Khan borgarstjóri í Lundúnum tryggði sitt þriðja kjörtímabil í embætti þegar hann sigraði borgarstjórnarkosningar í Lundúnum fyrir hönd Verkamannaflokksins í dag. 

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins um kosningarnar segir að Khan hafi sigrað Susan Hall, andstæðing sinn úr Íhaldsflokknum, með meira en 276 þúsund atkvæðum. Hann hafi hlotið meiri hluta atkvæða í níu af fjórtán kjördæmum. 

Í sigurræðu sinni sagði Khan að það væri heiður lífs hans að hafa tryggt sitt þriðja tímabil. Þá þrýsti hann á Rishi Sunak forsætisráðherra að boða til þingkosninga, en samkvæmt reglum mega næstu þingkosningar ekki fara fram seinna en í janúar á næsta ári. 

Kosið var um alls 2.600 stöður í 107 héruðum. Auk embættis borgarstjóra Lundúna voru níu borgar- og sveitarstjóraembætti eru undir og 37 embætti lögreglustjóra á Englandi og Wales. 

Samkvæmt heimildum The Guardian hefur Verkamannaflokkurinn að auki sigrað kosningarnar í West Midlands en sami miðill greindi frá því fyrr í vikunni að mögulega verði kallað eftir því að Rishi Sunak forsætisráðherra segi af sér ef flokkurinn tapar sveitarstjórastólunum í bæði West Midlands og Tees Valley. Niðurstöðurnar úr kosningunum í Tees Valley liggja ekki enn fyrir. 

Í tilkynningu segir Rishi Sunak að úrslitin hafi valdið honum vonbrigðum. Það séu erfiðir tímar hjá flokknum en þrátt fyrir það sé áætlun flokksins til að veita íbúum Bretlands bjartari framtíð „að virka“. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×