Körfubolti

Geta unnið fjóra í röð í fyrsta sinn í heilan ára­tug

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chaz Williams og félagar í Njarðvíkurliðinu eru á þriggja leikja sigurgöngu í þessari úrslitakeppni.
Chaz Williams og félagar í Njarðvíkurliðinu eru á þriggja leikja sigurgöngu í þessari úrslitakeppni. Vísir/Diego

Njarðvíkingar geta stigið stórt skref í átt að úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Val í Ljónagryfjunni í kvöld en þeir væru þá komnir í 2-0 og vantaði því aðeins einn sigur úr næstu þremur leikjum til að vinna einvígið.

Njarðvíkingar voru 1-2 undir á móti Þór úr Þorlákshöfn í átta liða úrslitunum en tryggðu sig áfram með því að vinna tvo síðustu leikina. Þeir fylgdu því síðan eftir með sigri í fyrsta leik undanúrslitanna á móti Val.

Þrír sigurleikir í röð og síðast unnu Njarðvíkingar fjóra leiki í röð í úrslitakeppni vorið 2014. Þeir geta því í kvöld unnið fjóra leiki í röð í úrslitakeppni í fyrsta sinn í heilan áratug.

Vorið 2014 vann Njarðvík alla þrjá leiki sína á móti Haukum í átta liða úrslitum og fylgdi því síðan eftir með útisigri í Grindavík í fyrsta leik undanúrslitanna. Grindavík vann þó einvígið á endanum 3-2.

Tveir af þessum þremur leikjum á síðustu dögum hafa Njarðvíkingar unnið á útivelli en í kvöld eru Njarðvíkingar á heimavelli í fyrsta sinn í þessum undanúrslitum.

Njarðvíkingar eiga metið yfir flesta sigurleiki í röð í úrslitakeppni en þeir unnu ellefu leiki í röð frá 1985 til 1988.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.15 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 18.45.

  • Flestir sigurleikir í röð hjá Njarðvík í úrslitakeppni:
  • 11 sigurleikir í röð 1985-1988
  • 7 sigurleikir í röð 1998-1999
  • 6 sigurleikir í röð 2002-2003
  • 6 sigurleikir í röð 2001
  • 6 sigurleikir í röð 1984-1985
  • 5 sigurleikir í röð 2006-2007
  • 5 sigurleikir í röð 1995
  • 4 sigurleikir í röð 2014



Fleiri fréttir

Sjá meira


×