Sport

Borðaði flugu á HM í snóker

Sindri Sverrisson skrifar
Stephen Maguire var ef til vill bara orðinn svona svangur í gær, þegar hann greip flugu og setti upp í sig.
Stephen Maguire var ef til vill bara orðinn svona svangur í gær, þegar hann greip flugu og setti upp í sig. Getty/Tai Chengzhe

Afar furðulegt atvik átti sér stað á heimsmeistaramótinu í snóker í Sheffield á Englandi í gær, þegar Skotinn Stephen Maguire lagði sér flugu til munns.

Maguire var að keppa við Dave Gilbert í átta manna úrslitum á þessu virtasta snókermóti heims, þegar fluga lenti á snókerborðinu.

Ótrúlegt en satt þá ákvað Maguire að taka fluguna og setja hana upp í sig, eins og ekkert væri eðlilegra.

„Ahh, þetta var nú bara fluga. Ég spýtti henni út þegar enginn var að horfa,“ á Maguire að hafa sagt við Phil Haigh, blaðamann Metro, sem spurði hann út í athæfið.

Maguire varð að sætta sig við tap í leiknum, 13-8, eftir að hafa tapað átta af fyrstu níu römmunum.

Maguire náði að minnka muninn í 10-5 en gerði þá mistök og var gagnrýndur fyrir að missa stjórn á sér í augnablik, þegar hann sló hendi í borðið.

„Hann getur ekki leynt því hvað hann er pirraður, hve reiðin er mikil,“ sagði Phil Yates, lýsandi á Eurosport og bætti við:

„Af hverju gerir hann þetta? Einn daginn á hann svo sannarlega eftir að sjá eftir því. Það er allt í lagi að sýna að maður sé svekktur en ekki með þessum hætti.“

Maguire var enn svekktari eftir tapið: „Það var engin leið til baka eftir þennan fyrsta kafla. Ég gaf frá mér leikinn. En það verður að segjast að hann spilaði betur en ég og átti þetta skilið. Ég gefst aldrei upp en þetta var einn og hálfur dagur sem ég vil gleyma,“ sagði Maguire.

Í undanúrslitunum mætir Gilbert öðrum heimamanni, Kyren Wilson, en í hinum undanúrslitaleiknum eigast við Jak Jones og Stuart Bingham sem slógu út Judd Trump og Ronnie O'Sullivan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×