Innlent

Skemmdarvargar á eftir útilistaverkum eftir Einar Jóns­son

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Viðgerðir á styttunni hófust í hádeginu.
Viðgerðir á styttunni hófust í hádeginu. Vísir/BEB

Viðgerð er hafin á útlistaverkinu Útlögum sem var skemmt í gær. Það verður bæði  kostnaðarsamt og tímafrekt að gera við verkið að  sögn deildarstjóra Listasafns Reykjavíkur. Þetta er í annað skipti á nokkrum árum sem útilistaverk eftir Einar Jónsson fær slíka útreið.

Skemmdarverkið á Útlögum eftir Einar Jónsson var unnið í einhvern tímann í gær en verkið stendur við Melatorg í Vesturbæ Reykjavíkur. Sambærilegt spellvirki var unnið á öðru verki eftir sama listamann árið 2021. Sigurður Trausti Traustason deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur segir erfitt að segja til um hvort um sömu skemmdarvarga er að ræða.

„Þetta er hreint og klárt skemmdarverk og ég skil ekki alveg hvað vakir fyrir fólki en við vitum ekki hver var að verki. Fyrir nokkrum árum var unnið sambærilegt skemmdarverk á lágmyndinni Brautryðjandanum sem er á minnisvarða um Jón Sigurðsson á Austurvelli. Ég veit ekki hvort um er að ræða sömu aðila nú,“ segir Sigurður.

Margir hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum um skemmdarverkið og er mikið niðri fyrir Sigurður segist hafa fengið mikil viðbrögð. Viðgerð á verkinu hófst nú  eftir hádegi í dag og er búist við að hún taki nokkra daga.

„Gyllingin  nær inn í allar sprungur og holur í verkinu svo það verður tímafrekt að ná henni allri af. Þá er tímafrekt að gera nýja vaxhúð á verkinu en hún er sett á til að verja það. Kostnaður við viðgerðina getur  hlaupið á einhverjum hundruðum þúsunda króna,“ segir Sigurður. 

Aðspurður um hvort hann vilji beina einhverju til þeirra sem voru að verki svarar Sigurður: 

„ Ég myndi gjarnan vilja að þetta verði ekki gert aftur. Það er enginn skilningur á þessu. Þetta er lögbrot og mikið skemmdarverk,“ segir Sigurður að lokum. 

Allt á að fara af.Vísir/BEB

Vísir/BEB



Fleiri fréttir

Sjá meira


×