Innlent

Grát­biðja borgarstjórana um að bjarga „ein­stæðu lista­verki Guð­jóns“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson við borgarstjóraskiptin í janúar.
Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson við borgarstjóraskiptin í janúar. Vísir/Einar

Fastagestir og velunnarar Sundhallarinnar í Reykjavík biðla til borgarstjóra um að falla frá fyrirhuguðum breytingum á einni merkustu byggingu borgarinnar. Listaverki Guðjóns Samúelssonar eins og þeir komast að orði.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur, Sigurður Gísli Pálmason fjárfestir og Leifur Breiðfjörð listamaður eru á meðal þeirra sem rita grein í Morgunblaðið í dag og vara við fyrirhuguðum breytingum. Þeir beina orðum sínum til borgarastjóra kjörtímabilsins; Dags B. Eggertssonar og Einars Þorsteinssonar sem tók við stöðunni um áramótin.

„Ágætu borg­ar­stjór­ar, þótt búið sé að prím­signa þetta skemmd­ar­verk í stofn­un­um borg­ar­inn­ar, þá er enn ekki of seint að hverfa frá verknaðinum,“ segir greinarhöfundar.

Fjallað var um fyrirhugaðar endurbætur á Vísi í þessari grein árið 2022.

„Sund­höll Reykja­vík­ur er meðal merk­ustu bygg­inga borg­ar­inn­ar. Hún hef­ur ekki bara glæsi­legt klass­ískt ytra út­lit held­ur er innri gerð henn­ar sam­gró­in þeirri heild sem blas­ir við úti sem og inni í laug­inni sjálfri.“

Samþætt heildarlistaverk

„Hún er ein af fyrstu og fáum bygg­ing­um frá fyrri helm­ingi liðinn­ar ald­ar þar sem gætt er full­kom­ins sam­ræm­is í stíl og hönn­un ytra sem innra, milli stórra sem smæstu ein­inga og ein­stakra hluta. Hún er samþætt heild­arlista­verk þar sem hver hannaður kimi, stall­ur eða sylla er hluti af órjúf­an­legri samof­inni heild, enda sögð og skrá­sett sem alfriðuð, þótt sú vernd virðist eig­end­um ekki íþyngj­andi,“ segir í greininni.

Útilaug bættist við Sundhöllina árið 2017 og fylgdu breytingar á inngangi og búningsklefum.

„Við bygg­ingu nýrr­ar úti­laug­ar voru gerðar breyt­ing­ar í inn­gangs- og af­greiðslu­rými hall­ar­inn­ar sem breyttu út­liti og and­rými húss­ins, sem mörg­um þótti miður og að mestu óþarfar. Aðrar lausn­ir voru í boði. Fyrr­nefnd­ar breyt­ing­ar snertu þó ekki kjarn­ann, sjálft laug­ar­húsið.“

Órjúfanlegur hluti af heildinni

Greinarhöfundar segja að nú sé reitt til höggs að nýju.

„Breyta skal laug­ar­bökk­un­um og end­ur­gera í sam­ræmi við nú­tíma­kröf­ur, eyðileggja laug­ar­bakk­ana sem eru órjúf­an­leg­ur hluti af heild­inni og end­ur­hanna þá eft­ir kröf­um um nú­tíma­sund­laug­ar.“

Eng­in knýj­andi þörf sé á þess­ari breyt­ingu enda sé hún ekki gerð með þarf­ir sund­gesta að leiðarljósi held­ur sam­kvæmt óskil­greind­um nú­tíma­kröf­um.

„Gangi þetta fram verður þessu ein­stæða lista­verki Guðjóns Samú­els­son­ar spillt var­an­lega, til fram­búðar. Óþarfi að minna á þá sóun al­manna­fjár sem fylg­ir. Sund­höll­in þarfn­ast vissu­lega viðgerða. Látið þar við sitja. Notið pen­ing­ana í þarfari hluti.“

Þeir biðla til Dags og Einars.

Friðuð frá 2004

„Ágætu borg­ar­stjór­ar, þótt búið sé að prím­signa þetta skemmd­ar­verk í stofn­un­um borg­ar­inn­ar, þá er enn ekki of seint að hverfa frá verknaðinum. Látið þess­ar breyt­ing­ar daga uppi og ónýt­ast. Gerið þetta fyr­ir borg­ar­búa í virðing­ar­skyni við ein­stakt lista­verk á reyk­vískri grund.“

Í tillögu að breytingum frá því í desember síðastliðnum kemur fram að laugarker innilaugar sé orðið illa farið og þarfnist endurgerðar.

„Laugarkerið verður brotið niður og endursteypt, einnig verða pottar á austursvölum steyptir að nýju. Jafnframt verður þvottahús á neðri hæð fært á efri hæð og komið fyrir nýjum gufuböðum, þurrgufu og infra rauðri gufu á neðri hæð í stað þvottaherbergi.“

Ekkert annað en viðgerð í boði

Pétur Ármannsson, arkitekt, sviðsstjóri hjá Minjastofnun og sérfræðingur um Guðjón Samúelsson, tjáði Vísi árið 2022 að breytingarnar væru nauðsynlegar.

Staðreyndin væri sú að ef ekkert yrði gert við innilaugina myndi hún eyðileggjast. Breytingin væri einfaldlega óumflýjanleg ef nota ætti innilaugina áfram. Það væri „lífsspursmál fyrir húsið að fara í þessa viðgerð,“ sagði Pétur.

„Það er lykilatriði að mannvirki sé í notkun og þjóni upprunalegu hlutverki sínu. Það er ekki um neitt annað að ræða en að fara í þessa viðgerð,“ sagði Pétur.

Sundhöllin var hönnuð af Guðjóni Samúelssyni árið 1929 og tekin í notkun 1937. Menntamálaráðherra friðaði bygginguna í deesember 2004. Friðunin tekur til ytra og innra borðs laugar, búningsklefa og sturtuklefa. Minjastofnun Íslands hefur verið með í ráðum í hönnunarferlinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×