Innlent

Mis­lingar greinast á Norð­austur­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hinn smitaði vinnur á Þórshöfn og smithætta er til staðar meðal óbólusettra.
Hinn smitaði vinnur á Þórshöfn og smithætta er til staðar meðal óbólusettra. Vísir/Vilhelm

Fullorðinn einstaklingur greindist með mislinga á Norðausturlandi og er viðkomandi í einangrun í heimahúsi. Sóttvarnalækni barst tilkynning þess efnis í gærkvöldi.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Samstarfsmenn hins veika á Þórshöfn hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti sem og þeir sem sóttu Fjölmenningarhátíð á Vopnafirði sunnudaginn fjórtánda apríl síðastliðinn og afmarkaður hópur á Akureyri sem haft hefur verið samband við.

Mislingar eru bráðsmitandi skæður veirusjúkdómur sem smitar frá öndunarvegi. Einkenni geta komið fram einum til þremur vikum eftir smit. Helstu einkenni eru hiti, kvef, augnroði og útbrot á húð. Frekari upplýsingar um mislinga má finna á vef embættis landlæknis.

Heilbrigðisstofnun Austurlands hvetja þau sem telja sig vera með mislinga að hafa samband við næstu heilsugæslu símleiðis eða í gegnum netspjall Heilsuveru. Þau eru beðin vinsamlegast um að mæta ekki á heilsugæslu eða sjúklingamóttöku án þess að hafa fyrst samband, nema um neyð sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×