Skoðun

Ráða­leysi í grunn­skólum og hvar í fjandanum er Mary Poppins?

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir skrifar

Ég segi það oft og af innlifun, að ég elska vinnuna mína, enda starfa ég sem grunnskólakennari á yngsta stigi, þar sem einlægnin ræður ríkjum og árangur starfsins er sýnilegur.

Það er að segja ég elska vinnuna mína þangað til ég er minnt à að ég er bara ein manneskja og ekki Mary Poppins.

Ein manneskja stendur ekki undir öllum þeim mismunandi þörfum sem finna má í fjölbreyttum nemendahópi.

Við skulum kíkja inn í kennslustund:

Kennari byrjar á að útskýra námsefni à sama tíma og hann mætir hegðunarvanda á kantinum.

Eftir innlögn dreifir hann verkefnum, sérverkefnum og aðlöguðu efni, allt eftir þörfum hvers og eins.

Svo þarf að stökkva til og útskýra allt aftur, nema núna à öðrum tungumálum.

À meðan á því stendur fara nokkrar hendur á loft með brennandi spurningar. Meðal þeirra sem eru með hendur á lofti eru nemendur með aðlagað efni vegna námserfiðleika, sem þurfa sér innlögn og útskýringar.

Nú hringir tímavaki sem minnir á að einhverjir af þeim nemendum sem hafa verið í sér prógrammi eiga að fara í næsta verkefni og kennarinn þarf að lesa leiðbeiningarnar fyrir þá t.d. vegna lesblindu eða annars.

Á meðan fjölgar höndum à lofti og tíminn er à enda.

Eftir kennslu þarf að undirbúa innlögn, verkefni og nokkur mismunandi sérverkefni og aðlagað efni, fara yfir stærðfræðibækur og á foreldrafundi vegna enn frekari aðlögunar aðstæðna og námsefnis.

Fikt teygjum bætt við undir borð órólegra nemenda og pælt í ljósastýringu með húsverðinum vegna þeirra sem þola illa ljós-áreiti.

Eftir kennarafund er námskeið um hvernig kennarar geta mætt nemendum með áfallastreitu.

Sumir kennarar enda daginn í Bónus, þar sem fjárfest er í pizzusnúðum fyrir þá sem ekki verða með nesti að heiman daginn eftir.

Margir keyra heim, gjörsamlega tilfinningalega úrvinda.

P.s. ég bý svo vel að vera í frábæru teymi og með stjórnendur sem eru boðnir og búnir til að hjálpa, styðja og styrkja.

En enginn þeirra virðist geta töfrað mig í tvennu.

Ok, það er kominn tími til að ég fái að vita sannleikann. Er Mary Poppins tilbúningur eða hvar í fjandanum felur hún sig?

Höfundur er grunnskólakennari. 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×