Erlent

Eigin­maður Stur­geon á­kærður fyrir fjár­drátt

Kjartan Kjartansson skrifar
Nicola Sturgeon og Peter Murrell við kjörstað í Glasgow árið 2019. Þau stýrðu Skoska þjóðarflokknum saman um tíma, hún sem leiðtogi en hann sem framkvæmdastjóri.
Nicola Sturgeon og Peter Murrell við kjörstað í Glasgow árið 2019. Þau stýrðu Skoska þjóðarflokknum saman um tíma, hún sem leiðtogi en hann sem framkvæmdastjóri. AP/Scott Heppell

Peter Murrell, eiginmaður Nicolu Sturgeon, fyrrverandi oddvita skosku heimastjórnarinnar, var ákærður í tengslum við fjárfrátt hjá Skoska þjóðarflokknum í dag. Sturgeon sagði af sér skömmu áður en Murrell var handtekinn í fyrra.

Skoska lögreglan segir að Murrell hafi verið handtekinn í morgun en sleppt að loknum skýrslutökum og ákæru í kvöld. Hann var fyrst handtekinn í tengslum við málið í apríl í fyrra. Murrell var framkvæmdastjóri Skoska þjóðarflokksins (SNP), stærsta stjórnmálaflokk landsins, um tveggja áratuga skeið.

Ákæran tengist rannsókn lögreglunnar á fjármálum flokksins og hvernig um 600.000 pundum, jafnvirði tæpra 106 milljóna króna, sem áttu að fara í baráttu fyrir sjálfstæði Skotlands var varið, að sögn AP-fréttastofunnar. Gjaldkeri flokksins var handtekinn og sagði af sér í kjölfarið í fyrra.

Talsmaður flokksins sagði ekki við hæfi að tjá sig um málið á meðan það væri enn til rannsóknar en að handtaka Murrell væri sláandi.

Sturgeon sjálf var handtekin og yfirheyrð í júní en henni var sleppt án ákæru. Hún hafði óvænt sagt af sér sem oddviti heimastjórnarinnar og leiðtogi SNP nokkrum mánuðum áður.


Tengdar fréttir

Sturgeon sleppt úr haldi

Nicolu Sturgeon, fyrrverandi fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, hefur verið sleppt úr haldi lögreglu að loknum yfirheyrslum. Hún var handtekin í morgun í tengslum við yfirstandandi rannsókn á fjármögnun og fjármálum skoska þjóðarflokksins.

Nicola Sturgeon handtekin í tengslum við fjármálamisferli

Nicola Sturgeon, fyrrverandi forsætisráðherra Skotlands var handtekin nú í morgun í tengslum við yfirstandandi rannsókn sem stendur yfir á fjármögnun og fjármálum Skoska þjóðarflokksins. Grunur leikur á að flokkurinn hafi misfarið með kosningaframlög uppá 600 þúsund pund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×