Erlent

Mikill mann­skaði eftir sögu­legt úr­helli í eyði­mörkinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Að minnsta kosti 21 er látinn eftir gríðarlegt úrhelli á Arabíuskaga í vikunni.
Að minnsta kosti 21 er látinn eftir gríðarlegt úrhelli á Arabíuskaga í vikunni. AP/Jon Gambrell

Minnst tuttugu eru látnir í Óman og einn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eftir fordæmalausa úrkomu á tá Arabíuskagans á þriðjudaginn og í gær. Skyndiflóð fóru víða yfir og sat fólk fast víða í umferð og á flugvöllum.

Talið er að svæðið hafi fengið ársúrkomu á einungis einum sólarhring.

Rigning mældist 25,95 sentímetrar í SAF á þriðjudaginn og segja ríkismiðlar þar í landi að engin álíka úrkoma hafi mælst þar frá því mælingar hófust árið 1949, samkvæmt frétt BBC.

BBC segir vegi víða enn lokaða og jafnvel að ökumenn sitji enn fastir í bílum sínum í einhverjum tilfellum. Þá er búist við frekari rigningu á næstu dögum.

Sérfræðingar hafa lengi varað við aukningu öfga í veðri í heiminum, sem rekja megi til veðurfarsbreytinga af mannavöldum. Því hefur verið haldið fram að í þessu tilfelli hafi rigningin verið framkölluð af mönnum.

Ekkert bendir þó til þess að það eigi við rök að styðjast, samkvæmt veðurfræðingum sem ræddu við AP fréttaveituna. Þegar rigning sé framkölluð leiði það alls ekki til svo mikillar rigningar og í raun sé deilt um það hvort það virki í raun og veru að reyna að framkalla rigningu.

Þá benda þeir til þess að líkön höfðu spáð fyrir um mikla rigningu á svæðinu, að minnsta kosti sex dögum áður en hún skall á. Þeir segja úrhellið eiga sér eðlilegar skýringar og segja að þeir sem haldi því fram að rigningin hafi verið framkölluð viljandi, séu yfirleitt menn sem trúi ekki á veðurfarsbreytingar af mannavöldum.

Hér að neðan má sjá myndefni frá AP fréttaveitunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×